Öryggi í samgöng­um

Öryggi er leiðarljós í uppbyggingu og viðhaldi samgangna. Eitt stærsta verkefnið er að auka það.

Vegagerðin vinnur að því bæði ein og í samvinnu við aðra að þau markmið náist sem Alþingi ákveður hverju sinni og fram koma í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Umferðaröryggisáætlun stjórnvalda er samstarfsverkefni innviðaráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra.

Framkvæmd

Megináhersla er lögð á að vegir, og umhverfi þeirra, verði gerðir öruggari þannig að mannleg mistök í umferðinni leiði síður til alvarlegra slysa.

Áhersla er lögð á góða og örugga innviði fyrir alla samgöngumáta með aðskilnaði óvarinna vegfarenda og annarrar umferðar á vegum og stígum.

Framkvæmdir Vegagerðarinnar lúta umferðaröryggisstjórnun en hún felst í því að fylgja ákveðinni aðferðafræði, sem hefur umferðaröryggi að leiðarljósi, við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttekt á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun.


Umferðarhraði

Umferðarhraði er mikilvægur áhættuþáttur þegar umferðaröryggi er annars vegar.

Hann hefur áhrif á fjölda slysa og afleiðingar þeirra, þ.e. því hærri sem hraði er þegar slys verður, því alvarlegri verða afleiðingarnar.

Sjálfvirkt hraðaeftirlit er ein af megin áherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins en ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.


Slysagögn

Vegagerðin fær upplýsingar um umferðarslys frá Samgöngustofu sem byggir sína skráningu á lögregluskýrslum og gögnum frá fyrirtækinu Aðstoð og öryggi. Vegagerðin tengir þessi gögn við upplýsingar um umferð á þjóðvegakerfinu og reiknar slysatíðni, þ.e. fjölda slysa á milljón ekinna km.

Í töflum hér að neðan eru birtar upplýsingar um fjölda slysa og slysatíðni á þjóðvegum, þ.e. stofn-, tengi- og landsvegum.

Nánari lýsing á dálkaskiptingu í töflunum: Veg- og kaflanúmer, vegheiti, heiti upphafs- og endapunkts vegarkafla, lengd kafla, ÁDU (ársdagsumferð), fjöldi eignatjóna, fjöldi slysa þar sem alvarlegustu afleiðingar voru lítil meiðsli á fólki, fjöldi slysa þar sem alvarlegustu afleiðingar voru mikil meiðsli á fólki, fjöldi banaslysa, heildarfjöldi slysa og slysatíðni og loks heildarakstur á viðkomandi vegarkafla í þúsundum km. Vegagerðin áskilur sér rétt til að breyta þessum skrám ef villur koma í ljós síðar en þá mun koma ný dagsetning neðst í skrár.


Aðrar skýrslur