Vakt­stöð sigl­inga

Vegagerðin er ábyrg fyrir starfsemi Vaktstöðvar siglinga og fer með fjárhagslegt og faglegt eftirlit með Vaktstöðinni og verkefnum hennar.

Vaktstöðin rekur ýmsar öryggis- og eftirlitsþjónustur fyrir skip og samgöngur á sjó.

Inngangur

Vegagerðin hefur með höndum fjárhagslegt og faglegt eftirlit með rekstri vaktstöðvarinnar, sinnir samskiptum við stjórnvöld vegna verkefna hennar. Samgöngustofa sinnir alþjóðlegu samstarfi, svo sem samstarfi við Alþjóðasiglingamálastofnunina, IMO,  og Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA. Landhelgisgæslan, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Neyðarlínan annast rekstur vaktstöðvarinnar samkvæmt þjónustusamningi þar að lútandi. Landhelgisgæslan fer með faglega forystu í vaktstöðinni og sér um daglega stjórn hennar.

Markmið þjónustusamningsins er að tryggja öryggi sjófarenda eins og kostur er og að allir hlutaðeigandi aðilar sem mesta reynslu og þekkingu hafa á vöktun og leit og björgun sameinist um rekstur vaktstöðvar sjófarendum til hagsbóta.


Verkefni vaktstöðvarinnar

Hlutverk vaktstöðvarinnar er skilgreint í lögunum um hana og í tilskipun EB 59/2002. Í reynd má segja að aðalhlutverk vaktstöðvar sé fimmþætt:

  1. að fylgjast með allri umferð á sjó í lögsögu landsins og auðkenna skip og skrá
  2. að vera í sambandi við skip í lögsögunni þegar þörf  krefur
  3. að miðla upplýsingum til skipa um umhverfisatriði og tilkynningar varðandi siglingar
  4. að bregðast við og grípa til aðgerða ef aðstæður krefjast þess
  5. björgunarþjónusta á sjó (MRCC).
Hríseyjarferjan Sævar sumarið 2023. Mynd: Vilhelm GunnarssonSævar

Hríseyjarferjan Sævar sumarið 2023. Mynd: Vilhelm GunnarssonSævar


Skip í lögsögu

Vaktstöðin fylgist nú þegar með öllum fiskiskipum í lögsögunni í gegnum sjálfvirku tilkynningaskylduna (AIS) og tengd kerfi. Í gegnum  AIS-kerfið er hægt að fylgjast með öllum ferðum flutningaskipa með ströndum landsins.

Samkvæmt áætlunum Evrópusambandsins hefur verið komið upp rafrænu tilkynningakerfi um skipaumferð milli aðildarlanda sambandsins ásamt Noregi og Íslandi. Kerfi þetta heitir Safe SeaNet (SSN). Safe SeaNet safnar og miðlar upplýsingum um ferðir skipa, flutning á hættulegum efnum, siglingasögu, óhappaskrá og fleira.


Fjarskiptaþjónusta

Mikilvægt er að fjarskipti við skip í lögsögunni séu góð. Veita þarf góða fjarskiptaþjónustu og sjá skipum fyrir upplýsingum sem varða siglingar og siglingaleiðir ásamt almennri öryggisþjónustu. Þá má nefna milligöngu vaktstöðvar og þjónustu við skip vegna neyðarhafna.


Upplýsingar um umhverfið

Eitt mikilvægt atriðið í rekstri Vaktstöðvar siglinga er vöktun og notkun upplýsingakerfa um umhverfisþætti eins og veður, ölduhæð, sjávarfallastrauma o.fl.  Rauntímamælingar á þessum þáttum ásamt spám þar að lútandi verða með tímanum öflug hjálpartæki sem stjórnendur í vaktstöð nýta sér við að leysa vandamál sem upp koma  varðandi  siglingar og fiskveiðar og þegar upp koma mengunaróhöpp í lögsögunni. Upplýsingakerfi um umhverfisþætti þarf að þróa áfram og hefur verið unnið að því hjá Vegagerðinni að undanförnu.


Réttur til íhlutunar

Þær aðstæður geta komið upp varðandi ferðir skipa í lögsögunni að Vaktstöð siglinga verði að hafa afskipti af gangi mála. Tilskipun Evrópubandalagsins nr. 59/2002 gerir ráð fyrir svokallaðri aðstoð við skip í vanda (Maritime Assistance Service (MAS)) sem getur verið allt frá leiðbeiningum til skipstjórnarmanna varðandi siglingu skips í að senda flokk sérfræðinga um borð í skip sem á í vanda til að meta ástand þess.

Einnig liggur nú fyrir í lögum um verndun hafs og stranda íhlutunarréttur sem opnar leið til að grípa inn í ef útlit er fyrir óhapp sem leiðir til mengunar í lögsögunni. Skilin milli MAS og hreinnar björgunarþjónustu eru ef til vill óljós en vinna þarf ítarlegar starfsreglur varðandi MAS, þ.e. hvar liggur hlutverk vaktstöðvar og hvar ábyrgð skipstjórnanda.

Annað sem tengist þessu er ákvæði um neyðarhafnir og skipaafdrep og hlutverk vaktstöðvar þar að lútandi. Þessi þáttur kallar einnig á skilgreiningar og verklagsreglur. Íhlutunarrétturinn er ef til vill viðkvæmasti málaflokkurinn með tilliti til hvar ábyrgð málsaðila liggur. Samkvæmt breytingum sem gerðar voru á hafnalögum er það Samgöngustofa sem útnefnir skipaafdrep hér á landi.


Skipulag björgunarmála

Með tilkomu vaktstöðvar siglinga og aðkomu fulltrúa björgunaraðila á sjó í stjórn vaktstöðvar er nú betra tækifæri en áður hefur gefist til að samræma alla aðgerðir við björgunarstörf og nýta betur þann tækjabúnað sem fyrir hendi er. Með aðkomu björgunaraðila að vaktstöð er kominn grundvöllur fyrir betri björgunar- og siglingaþjónustu en áður hefur þekkst.