Samgöngu­áætlun

Innviðaráðherra skal leggja tillögu til þingsályktunar um stefnu í samgöngumálum, samgönguáætlun, til fimmtán ára fyrir Alþingi að lágmarki á þriggja ára fresti. Með henni setja stjórnvöld fram stefnu og markmið fyrir allar greinar samgangna. Samhliða skal leggja fram fimm ára áætlun um framkvæmdir, aðgerðaáætlun, fyrir fyrsta tímabil stefnunnar sem einnig skal endurskoðuð minnst á þriggja ára fresti.

Innviðaráðherra skal leggja tillögu til þingsályktunar um stefnu í samgöngumálum, samgönguáætlun, til fimmtán ára fyrir Alþingi að lágmarki á þriggja ára fresti. Með henni setja stjórnvöld fram stefnu og markmið fyrir allar greinar samgangna. Samhliða skal leggja fram fimm ára áætlun um framkvæmdir, aðgerðaáætlun, fyrir fyrsta tímabil stefnunnar sem einnig skal endurskoðuð minnst á þriggja ára fresti.

Lög um samgönguáætlun nr. 33/2008

Samgönguáætlun tekur til stefnu, fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, þ.e.a.s. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Vefur samgönguáætlunar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.


Vegvísir innviðaráðuneytisins

Vegvísir innviðaráðuneytisins
Vegvísi er ætlað að greiða aðgengi almennings að áætlunum innviðaráðuneytisins. Þar er hægt að nálgast ýmsar lykilupplýsingar til dæmis um fjármagn og markmið áætlana eða fylgjast með framvindu aðgerða í einstökum landshlutum

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut


Samgönguáætlun 2020-2034

Samgönguáætlun til fimmtán ára 2020-2034 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2020-2024 voru samþykktar samhljóða á Alþingi 29. júní 2020. Um er að ræða uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun á grunni þeirrar sem samþykkt var á Alþingi í febrúar 2019. Þessi samgönguáætlun er ein sú umfangsmesta sem samþykkt hefur verið og felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og víðtæk áform um nýframkvæmdir og viðhald á vegum, höfnum og flugvöllum um land allt.

Bein framlög til samgöngumála nema um 640 milljörðum króna á fimmtán ára tímabili samgönguáætlunar. Sérstök 6,5 milljarða aukafjárveiting fyrir samgönguframkvæmdir árið 2020 úr fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar vorið 2020 vegna Covid-19 var felld inn í áætlunina.

Þingsályktun um fimmtán ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034

 


Breytingar á samgönguáætlun 2020-2024

Alþingi samþykkti 29. júní 2020 samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Áhrif af heimsfaraldri COVID-19 urðu til þess að forsendur framlagðrar samgönguáætlunar gjörbreyttust í einni svipan. Til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins samþykkti Alþingi sérstakt tímabundið fjárfestingarátak þess efnis að 6,5 milljörðum yrði ráðstafað til framkvæmda við samgöngumannvirki á árinu 2020 til viðbótar því sem áður hafði verið gert ráð fyrir.

Alþingi samþykkt síðan 29. maí 2021 breytingu á fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 til að tryggja áframhaldandi fjárveitingu til verkefna fjárfestingarátaksins. Ekki var talin ástæða til að leggja fram tillögu að nýrri forgangsröðun framkvæmda á seinni tímabilum 15 ára samgönguáætlunar fyrir árin 2020–2034.

Þingsályktun um breytingu á fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024