Lofts­lag

Aðgerðir í loftslagsmálum eða Heimsmarkmið 13 er eitt af þeim Heimsmarkmiðum SÞ sem Vegagerðin horfir sérstaklega til að draga úr kolefnisspori framkvæmda.

Þar undir fellur greining á losun gróðurhúsalofttegunda, aðgerðir til að draga úr orkunotkun og notkun jarðefnaeldsneytis í þjónustu Vegagerðarinnar.

Meðal áherslna í umhverfisstefnu Vegagerðarinnar er vinna í átt að hagkvæmri nýtingu auðlinda og að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðgerðir til að draga úr loftslagsáhrifum starfseminnar fela í sér bæði aðgerðir til að draga úr orkunotkun í þjónustu Vegagerðarinnar, hanna framkvæmdir með minnkun kolefnisfótspors að leiðarljósi, auka notkun virkra ferðamáta og styrkja almenningssamgöngur um allt land með því að því markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Skýr stefna og hlutdeild starfsmanna Vegagerðarinnar er forsenda þess að ná þessum markmiðum og fræðsla og ábyrgð í málaflokknum er hluti af sjálfbærnistefnunni. Dæmi um verkefni sem er í vinnslu hjá Vegagerðinni er þróun kolefnisreiknis til að reikna lífsferilsgreiningar fyrir mannvirkjaframkvæmdir á staðlaðan og nákvæman hátt.

Aðlögun og seigla gagnvart loftslagsbreytingum 

Afleiðingar breytinga á loftslagi af mannvöldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda geta leitt til hækkunar yfirborðs sjávar, röskunar vistkerfa og öfga í veðurfari eins og ofsarigningu og flóð. Mikilvægt að taka mið af þessum breytingum við hönnun mannvirkja og í starfsemi Vegagerðarinnar til að auka viðnám og seiglu samgöngukerfisins gagnvart loftslagsbreytingum og draga úr líkum á samgöngurofi og samgöngutruflunum sökum þeirra.