Vegagerðin rekur öldudufl hringinn í kringum landið. Sjávarhæðamælar eru á borði Vegagerðarinnar í samvinnu við hafnir landsins. Öldukort er úrvinnsla á ölduspárgögnum og öldufarsreikningum inná grunnsævi við strendur landsins.
Efnisyfirlit
Öldukort sýna jafnhæðalínur ölduhæða fyrir ákveðna tíðni eða endurkomutíma öldu. Þau gagnast m.a. aðilum sem stunda farþegasiglingar, hönnuðum hafnarmannvirkja, sjóvarna og sjóeldiskvía.
Öldukort eru unnin úr langtíma öldufarsreikningum. Öldufarsreikningar byggja á nákvæmum dýptargrunnum og upplýsingum um öldur (hæð, sveiflutíma og stefnu) á úthafi og sjávarföllum. Dýptargrunnar eru fengnir frá Sjómælingum Íslands og Vegagerðinni. Tímaraðir fyrir öldu og vind eru fengnar frá evrópsku veðurstofunni (ECMWF) í ákveðnum hnútpunktum fyrir 20 – 30 ára tímabil. Við gerð sumra öldukorta eru vindgögn fengin frá Veðurstofu Íslands.
Úthafsaldan frá hafi að landi er reiknuð með hugbúnaðinum MIKE21 frá dönsku straumfræðistofnuninni DHI. Tölfræðileg úrvinnsla á þéttu neti tímaraða fyrir ákveðin hafsvæði leggja grunninn að öldukortunum og byggir tölfræðileg greining á General Pareto líkindadreifingunni.
Sjávarborðsmælar eru staðsettir í höfnum víðsvegar um landið. Mælarnir voru í flestum tilvikum settir upp fyrir tilstuðlan Vegagerðarinnar og þeir elstu hafa verið í notkun frá því fyrir 1995. Hafnirnar eiga og bera ábyrgð á mælunum en rekstur er að miklu leyti í samstarfi við verktaka.
Gögn frá þessum mælistöðvum eru meðal annars birt á vefsíðu Vegagerðarinnar sjólag.is. Sjávarborðsmælarnir veita upplýsingar um tímasetningu flóðs og fjöru, sem og sjávarhæð í rauntíma. Slíkar upplýsingar eru mikilvægar fyrir skipa og bátaumferð og vinnu í og við höfnina. Til viðbótar við þetta þá nýtast sjávarborðsmælingarnar einnig til þess að meta langtíma breytingar á meðalsjávarborðshæð og hæstu og lægstu sjávarborðshæðir sem búast má við ma. vegna mats á flóðhæðum. Hér fyrir neðan má finna ársskýrslur sem gerðar eru fyrir sjávarhæðamæla víðsvegar um landið. Þar má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um sjávarhæðamælingar liðinna ára.