Ísland hefur bætt stöðu sína í umferðaröryggi samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum Evrópusambandsins yfir fjölda látinna í umferðinni miðað við höfðatölu í ríkjum Evrópu.
Þar er Ísland í þriðja sæti á eftir Norðmönnum og Svíum með fæst banaslys árið 2022. Samkvæmt meðaltali áranna 2018-2022 er Ísland í fjórða sæti yfir þær þjóðir þar sem fæstir látast í umferðinni miðað við höfðatölu. Aðeins Norðmenn, Svíar og Bretar standa sig betur á fimm ára tímabilinu.
Þar sem fjöldi slysa á Íslandi er breytilegur milli ára hefur þótt rétt að tengja markmið við fimm ára meðaltal í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir. Ef næsta fimm ára tímabil á undan er skoðað var Ísland í 9. sæti.
„Eitt af yfirmarkmiðum gildandi samgönguáætlunar og umferðaröryggisáætlunar er að Ísland sé í hópi þeirra fimm Evrópuþjóða þar sem fæstir látast í umferðinni. Þetta markmið hefur nú náðst og það verður áskorun næstu ára að halda okkur á þessum stað í alþjóðlegum samanburði. Hvert banaslys er þó alltaf einu of mikið og við þurfum áfram að vinna að því hörðum höndum að uppræta þá vá sem banaslys í umferðinni eru,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.
Fjölmargir þættir stuðla að þessari jákvæðu þróun; ökutæki eru orðin öruggari, vegir betri og ökumenn standa sig betur. Fræðsla og forvarnir, ekki hvað síst til erlendra ökumanna, hafa skilað sér vel sem og sömuleiðis hvatning um að við bætum hegðun okkar í umferðinni.
„Samkvæmt þessum tölum er umferðaröryggi á Íslandi með því besta sem gerist í Evrópu. Árangurinn er ekki sjálfsagður og er afrakstur áralangs samstarfs fjölmargra aðila sem koma að málaflokki umferðaröryggis. Fjölmargir geta tekið þennan árangur til sín og vonandi verður hann okkur öllum hvatning til að gera enn betur,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu.
Margir aðilar vinna að því að efla umferðaröryggi, þ.á m. innviðaráðuneytið, Samgöngustofa, Vegagerðin, lögreglan, Slysavarnafélagið Landsbjörg, sveitarfélög, fjölmiðlar, tryggingafélög, ökuskólar og ökukennarar. Auk þess sinnir fjöldi félagasamtaka og einstaklinga ómetanlegu starfi í þágu umferðaröryggis.
Endanlegar tölur Evrópusambandsins um fjölda látinna í umferðinni fyrir árið 2022 verða birtar seinni hluta ársins.