LOKI kolefn­isreikn­ir

Vegagerðin hefur ákveðið að leggja í þá vegferð að meta heildstætt kolefnisspor allra sinna framkvæmda til að geta með markvissum hætti farið í aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verkfræðistofan EFLA var fengin til að þróa kolefnireikni í samvinnu við Vegagerðina með því markmiði að með því að auka þekkingu og skilning á kolefnisspori framkvæmda og í framhaldinu lækka kolefnissporið. Kolefnisreiknirinn hlaut nafnið LOKI sem stendur fyrir „lífsferilsgreining og kolefnispor innviða“.

Uppbygging kolefnisreiknisins LOKA og notkun

LOKI er reiknir byggður upp í töflureikni sem auðveldar og samræmir gerð lífsferilsgreininga fyrir innviðaframkvæmdir og er gerður að norrænni fyrirmynd og aðlagaður að innlendum forsendum. LOKI kolefnisreiknir notar magntölur úr hönnun samgöngumannvirkja og byggir á verkþáttaskrá Vegagerðarinnar. Í reikninum eru losunarstuðlar sem endurspegla íslenskar aðstæður. Hægt er að aðlaga reikninn eftir þeim hráefnum sem notuð eru og því hægt að meta áhrif af t.d. steypu sem hefur lægra hlutfall af sementi og þ.a.l. lægra kolefnisspor, endurnýtingu á efni við framkvæmdir, t.d. malbiki og jarðefnum, nýtingartíma mannvirkja og möguleika til viðhalds og endurnýtingar og fleiri þátta á kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins. Hægt er að nota LOKA á öllum stigum hönnunar en nákvæmni reikningana eykst því nær framkvæmd er komið.

Fyrsta útgáfa LOKA nær yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. LOKI mun svo á næstu árum þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar í stuðlum, orkugjöfum og hráefnum.  Í næstu útgáfu LOKA verður t.d mögulegt að þróa leiðir til að taka inn allt viðhald á líftíma, losun vegna þjónustu og reksturs og ná yfir breytingar í orkunotkun og magni á meðan framkvæmd stendur.

Stefnt er að því að nýta LOKA við hönnun allra framkvæmda á samgönguáætlun allt frá frumdrögum til verkhönnunar. Einnig verður LOKI aðgengilegur öllum sem áhuga hafa á og nýtist vonandi öðrum framkvæmdaraðilum, annað hvort beint eða sem innblástur og grunnur að sínum lífsferilsgreiningum.