Færanleg brú þar til Sæbrautarstokkur er tilbúinn
Gerð verður tímabundin göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut, sem mun bæta umferðaröryggi verulega, ekki síst fyrir skólabörn í Vogabyggð. Brúin verður yfirbyggð, með lyftu og tröppum og verður áhersla á jákvæða upplifun vegfarenda og að innra rými verði aðlaðandi. Endanlegt útlit hefur ekki verið ákveðið en í skoðun er að nota litað plexígler í yfirbyggingunni til að ýta undir skemmtilega upplifun. Einnig verður góð lýsing í og við brúna.
Núverandi aðstæður við Sæbraut kalla á trygga tengingu yfir götuna sem fyrst og því verður ráðist í tímabundnar aðgerðir á þessum stað. Framtíðarlausnin er að Sæbraut verði sett í stokk eins og stendur í Samgöngusáttmálanum. Brúin tengist Snekkjuvogi/Barðavogi í vestri og Tranavogi/Dugguvogi í austri.
Tímabundin göngu- og hjólabrú, þar til stokkur er tilbúinn, er því mikilvægur þáttur til að tryggja umferðaröryggi óvarinna vegfarenda milli hinnar nýju Vogabyggðar og Vogahverfis. Þetta á við áður en framkvæmdir stokks byrja og á meðan á framkvæmdum stendur. Brúin verður þannig gerð úr garði að hægt verður að færa hana á meðan á framkvæmdatímanum stendur.
Reykjavíkurborg og Vegagerðin hófu undirbúning formlega haustið 2022. Skoðaðir voru möguleikar á því að gera brú annars vegar með römpum og hins vegar með lyftum. Mikill hæðarmunur er þarna svo lyftubrú er betri kostur því rampar yrðu langir. Góð reynsla hefur verið af sambærilegum brúm til dæmis í Noregi þar sem þær eru talsvert notaðar, til dæmis í neyðartilfellum.
Vegagerðin og Reykjavíkurborg setja fram fimm skilyrði vegna brúarinnar:
Áætlaður kostnaður við byggingu brúarinnar er um 250 milljónir króna en til viðbótar má gera ráð fyrir kostnaði við að tengja núverandi stíga að brúnni. Næsta skref er að farið verður í útboð, bæði efnisútboð og framkvæmdarútboð.
Endanlegar teikningar liggja ekki fyrir en meðfylgjandi mynd gefur til kynna þá sýn sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin leggja áherslu á í framkvæmdinni, að brúin verði aðlaðandi og örugg. Áætlað er að brúin verði opnuð gangandi- og hjólandi vegfarendum í upphafi næsta árs en að öllum frágangi verði síðan lokið sumarið 2024.
Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er m.a. að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.