Samgöngu­sáttmálinn

Samgöngusáttmálinn er tímamótasamkomulag sem gert var milli ríkinsins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára.

Um Samgöngusáttmálann

Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu þann 26. september 2019. Samkomulagið felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir skipulagssvæðið.

Markmiðið er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.

Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær. Hinn 29. júní sl. voru lög nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu samþykkt. Með þeim fékk fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að stofna fyrirtækið. Betri samgöngur ohf. var stofnað 2. október það ár.  

Vegagerðin annast undirbúning, hönnun og verklegar framkvæmdir á vegum Samgöngusáttmálans í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Betri samgöngur ohf. hafa yfirumsjón og eigendaeftirlit með uppbyggingu samgöngumannvirkjanna, auk þess að tryggja fjármögnun.

 

Markmið Samgöngusáttmálans

Greiðari samgöngur og fjölbreyttir ferðamátar

Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.

Kolefnislaust samfélag

Stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum ríkis og sveitarfélaga um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag með eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum, bættum innviðum fyrir vistvæna samgöngumáta og hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.

Aukið umferðaröryggi

Stuðla að auknu umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum.

Samvinna og skilvirkar framkvæmdir

Tryggja skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð verkefnisins, m.a. með því að skilgreina samstarfsform, kostnaðarskiptingu, ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir.

Fyrirmyndir í erlendum samgöngusáttmálum

Samgöngusáttmálinn á sér fyrirmynd í sambærilegum sáttmálum s.s. Þrándheimi, Stafangri, Haugasundi, Kristjánssandi, Namsós og Trönsberg og einnig í Svíþjóð.


Myndband - Nýir tímar

Framkvæmdir Samgöngusáttmálans

Hjólastígur frá Eiðsgranda sem nær að Boðagranda við JL húsið.

Hjólastígur frá Eiðsgranda sem nær að Boðagranda við JL húsið.

Hjólastígur í Elliðaárdal, frá Stekkjarbakka að Árbæjarlaug

Hjólastígur í Elliðaárdal, frá Stekkjarbakka að Árbæjarlaug

Framkvæmdir

Verkefni
Staðan
Vesturlandsvegur: Skarhólabraut – Hafravatnsvegur  
Framkvæmdum lokið.
Reykjanesbraut: Kaldárselsvegur – Krísuvíkurvegur 
Framkvæmdum lokið.
Suðurlandsvegur: Bæjarháls – Vesturlandsvegur
Framkvæmdum lokið.
Reykjanesbraut: Gatnamót við Bústaðaveg
Frumdrögum að ljúka.
Arnarnesvegur: Rjúpnavegur – Breiðholtsbraut
Í framkvæmd.
Sæbrautarstokkur
Forhönnun að ljúka. Mati á umhverfisáhrifum að ljúka.
Borgarlínan lota 1: Ártún - Hlemmur
Frumdrögum lokið. Í forhönnun.
Borgarlínan lota 1: Hamraborg - Hlemmur
Frumdrögum lokið. Í forhönnun.
Borgarlínan lota 2: Hamraborg - Lindir 
Í frumdragavinnu.
Borgarlínan lota 3: Mjódd - BSÍ
Í undirbúningi.
Borgarlínan lota 4: Fjörður - Miklubraut
Borgarlínan lota 5: Ártúnshöfði - Spöng
Borgarlínan lota 6: Ártúnshöfði - Háholt
Í undirbúningi
Miklubrautarstokkur
Frumdrögum að ljúka
Reykjanesbraut: Álftanesvegur – Lækjargata
Frumdrögum lokið
Suðurlandsvegur: Norðlingavað – Bæjarháls
Í undirbúningi
Hafnarfjarðarvegur: Stokkur í Garðabæ

Skýrslur og kynningarefni