Vegagerð á sér nokkuð langa sögu á Íslandi enda hafa samgöngur alla tíð skipt miklu máli fyrir byggð í landinu.
Fyrsti verkfræðingur landsins var ráðinn árið 1893 eða fyrir 130 árum.
Vegagerð á sér nokkuð langa sögu á Íslandi enda hafa samgöngur alla tíð skipt miklu máli fyrir byggð í landinu.
Fyrsti verkfræðingur landsins var ráðinn árið 1893 eða fyrir 130 árum, það stöðuheiti varð síðar að embætti landsverkfræðings. Fyrsti landsverkfræðingurinn var Sigurður Thoroddsen en hann var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í verkfræði. Sigurður gegndi embætti til 1904 en tók þá við starfi kennara við Lærða skólann í Reykjavík. Tveir aðrir gegndu embætti landsverkfræðings, þeir Jón Þorláksson og Thorvald Krabbe.
Framkvæmdir voru hógværar til að byrja með en árið 1894 var rætt um gerð akfærra flutningabrauta sem skulu akfærar hlöðnum vögnum á sumrin. Horft var til leiða austur frá Reykjavík, í Rangárvallasýslu og að Geysi. Uppsveitir Árnessýslu komu við sögu, til Eyrarbakka, í Borgarfjörð og einnig í sveitirnar út frá Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Búðareyri við Reyðarfjörð og um Fagradal. Síðar tók við vegagerð yfir heiðar svo sem Mosfellsheiði, Hellisheiði, Holtavörðuheiði, Grímstunguheiði og Hrútafjarðarháls.
Rétt eins og nú þá voru verkefnin mörg. Brú yfir Ölfusá var byggð 1891, Þjórsá árið 1895 og brú yfir Blöndu 1897. Þær brýr voru hannaðar og smíðaðar erlendis en fyrsta brúin sem var alfarið byggð á Ísland var brú yfir Ytri-Rangá árið 1912.
Þegar hér er komið við sögu var farið að aka á bifreiðum um vegi og jókst þá álagið mikið og hefur sú aukning verið viðvarandi og ekki að sjá nokkurt lát á því. Enda hóf Vegagerðin að bæta tækjakost sinn og keypti árið 1920 fjórar bifreiðar til malarflutninga og vegvaltara og mulningsvélar í kjölfarið. Á styrjaldarárunum komu svo enn stórvirkari tæki til sögunnar í vegagerð.
Á þessari ríflegu öld hefur vegakerfið lengst til muna. Árið 1917 taldist það um 500 km. Átta árum seinna voru bílvegir orðnir 612 km og kerruvegir 712 km. Eftir stríð, árið 1946 töldust þeir um 4.400 km. Á þeim árum var farið að líta til þess að ekki aðeins lengja vegakerfið og byggja fleiri brýr heldur einnig að styrkja vegi og byggja þá upp úr snjó.
Það verk hélt áfram fram yfir árið 1970. Stór varða á leið nútíma vegakerfis fólst í því að ljúka Hringveginum með gerð brúa á Skeiðarárssandi árið 1974. Má segja að vegakerfið hafi þá í aðalatriðum verið komið í það horf sem það er nú.
Verkefnin hurfu ekki og upp úr 1970 var áherslan lögð á bundið slitlag á malarvegina. Stórt átak í þeim efnum var gert upp úr 1980 þegar sum árin var lagt meira en 300 km af bundnu slitlagi, með góðri lausn fyrir umferðarminni íslenska vegi, sem fólst í klæðingunni. Hún dugði vel fyrir þá umferð sem var og þar sem hún var mun ódýrari en malbikun mátti komast margfalt lengra en ella. Jafnvel var nýtt einbreitt slitlag til að komast sem lengst. Þjóðin þráði að losna við holur og ryk.
Árið 1994 var búið að leggja bundið slitlag á 2.840 km af þjóðvegum landsins. Í dag er svo komið að tæplega 6.000 km af 13.000 km þjóðvegakerfi er nú lagt bundu slitlagi. Þrátt fyrir að stórt hlutfall sé enn malarvegir þá fer um 97 prósent allrar umferðar um vegi með bundnu slitlagi og í auknum mæli á malbiki. Áhersla er lögð á að lengja malbikskafla á kostnað klæðingar enda kallar aukin umferð á það.
Stærstu verkefni í vegagerð dagsins felast í breikkun vega til að m.a. aðskilja akstursstefnur og þannig auka umferðaröryggi. Þá bíða mörg stór verkefni í endurnýjun brúa.
Aukinn ferðamannastraumur hefur og gjörbreytt landslaginu á Íslandi þar sem stór hluti þeirra á þriðju milljón ferðamanna sem koma til Íslands á ári hverju velur að ferðast um á eigin vegum með því að leigja sér bílaleigubíl. Í því felast margar áskoranir fyrir Vegagerðina, hvorttveggja í bættu vegakerfi og aukinni þjónustu við ferðamennina og allan almenning. Vaxandi krafa er um bætta vetrarþjónustu því hinir erlendu gestir koma í sífellt meiri mæli til landsins á veturna. Það kallar einnig á þörf fyrir aukna upplýsingamiðlun á fleiri tungumálum en íslensku.
Upplýsingar um færð og ástand vega á umferdin.is er til að mynda að finna á ensku og pólsku auk íslensku. Þannig hafa áherslur Vegagerðarinnar breyst í áranna rás og í raun tekið stakkaskiptum. Verkefni Vegagerðarinnar eru auk þess mun fjölbreyttari en nokkurn tíma áður, með þjónustu við vegakerfið, þjónustu við vegfarendur, rekstur jarðganga og umsýslu almenningssamgangna hvort heldur er á láði, legi eða í lofti. Vegagerðin sinnir einnig ráðgjöf í hönnun hafnarmannvirkja, sinnir sjóvörnum, rekur Landeyjahöfn, 103 ljósvita auk þess að fylgjast með öldufari á sjó. Sjófarendur sækja upplýsingar Vegagerðarinnar um það á vefnum sjolag.is. Unnið er að margháttuðum rannsóknum hvort heldur er í vegagerð eða hafnargerð og öðru er snýr að hafinu.
Mikilvægi samgangna er ótvírætt og nútímaþjóðfélag fær trauðla þrifist án þess að þessar lífæðar sem samgöngumannvirki eru séu greiðar allan ársins hring. Það sést vel þegar loka þarf umferðarmiklum vegum hversu mikilvægir þeir eru. Auk þess er vert að hafa í huga að vegakerfið er dýrasta eign þjóðarinnar og því mikilvægt að viðhalda henni vel öllum til hagsbóta.
Vegagerðin rekur minjasafn sem heitir Íslenska vegminjasafnið. Heiti þess er stytt í Vegminjasafnið.
Vegminjasafnið á sér þegar nokkurra áratuga sögu. Safnað hefur verið saman ýmsum munum og upplýsingum frá fyrri tíð, og nokkrar vélar sem notaðar voru við vegagerð hafa verið gerðar upp til varðveislu. Upphaf safnsins má rekja til þess að Starfsmannafélag Vegagerðarinnar hóf söfnun gamalla muna er tengdust vegagerð. Það var svo í byrjun árs 1989 að Vegagerðin tók við umsjón safnsins.
Safnið á töluvert af munum, tækjum og tólum. Þetta eru vegagerðarvélar, skúrar, tjöld, handverkfæri, ljósmyndir, mælingatæki, skrifstofuáhöld, umferðarskilti, smíðaverkfæri, reiðtygi, líkön og margt fleira.
Vettvangur Vegminjasafnsins er Ísland allt. Undir það heyra minjar, sem eðli málsins samkvæmt, verða ekki sýndar inni í húsum. Það eru til dæmis gamlir vegir og brýr.
Árið 2002 var gerður samningur við Samgöngusafnið í Skógum undir Eyjafjöllum, um að það haldi sýningar á safngripum Vegminjasafnsins. Samgöngusafnið er hluti af Byggðasafninu í Skógum.
Vegminjasafnið er með eina deild í Samgöngusafninu, þar sem sýndir eru ýmsir munir þess, svo sem, ámokstursskóflur, vegheflar, valtari, vörubíll, snjóbíll, vegavinnutjald með búnaði og ýmislegt annað. Sjá vef Samgöngusafnsins
Afar mikilvægt er að varðveita mannvirki sem minna á gamla tíma og eru einkennandi fyrir fyrritíðar verkhætti, vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Þetta á einnig við um muni sem mannvirki.
Ýtarlegri upplýsingar um Vegminjasafnið má sjá í greininni Vegminjasafnið frá árinu 2007.