Selfoss- Hvera­gerði

  • TegundVegir
  • StaðaFramkvæmd hafin
  • Verktími2016–2023
  • Markmið
      Öruggar samgöngurJákvæð byggðaþróun
  • Flokkar
      Vegir
  • Svæði
    • Suðausturland

Breikkun Hringvegar frá Biskupstungnabraut að Kambarótum. Byggður verður 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum með vegriði í miðdeili og planvegamótum. Hönnun miðar við að breikkað verði síðar í 2+2 veg og gera allar breiddir og rými ráð fyrir þeirri breikkun síðar.

Um framkvæmdina

Í undirbúningi er breikkun Hringvegar (1) frá Selfoss að Hveragerði. Í tillögum að samgönguáætlun er gert ráð fyrir að byggður verði 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum með vegriði í miðdeili og planvegamótum á kaflanum milli Selfoss og Hveragerðis, nánar tiltekið frá Biskupstungnabraut að Kambarótum.

Í áætlunum er gert ráð fyrir að hannaður verði 2+2 vegur með aðskildum akstursstefnum, öll undirbygging vegar verður byggð sem 2+2 strax í upphafi en malbiks- og efri burðarlög verði lögð sem 2+1 vegur í upphafi. Allar breiddir og rými munu gera ráð fyrir breikkun síðar í 2+2 veg, jafnframt verður tekið frá rými fyrir mislæg vegamót í framtíðinni.

Markmið framkvæmdarinnar er aukið umferðaröryggi með aðskilnaði akstursstefna og fækkun tenginga við Hringveg ásamt því að auka umferðarrýmd vegakerfisins milli Hveragerði og Selfoss.

Breikkun Hringvegar byrjar frá Kambarótum og sveigir fljótlega frá núverandi Suðurlandsvegi í samræmi við aðalskipulag Hveragerðisbæjar en fylgir veglínu núverandi vegar frá Varmá. Vegamót Þorlákshafnar færast um rúmlega 100 m til suðurs. Á tveimur stöðum víkur veglína frá núverandi vegi. Á kaflanum frá Kotstrandskirkju að Hvammsvegi eystri (um 2,5 km) og um Þórustaðamýri frá Þórustaðanámu að Biskupstungnabraut (um 2,0 km). Á þeim köflum mun núverandi vegur nýtast áfram sem hliðarvegur. Ný vegamót Hringvegar og Biskupstungnabrautar færast um tæplega 200 m til norðurs. Sjá nánar á skýringaruppdráttum. Á skýringaruppdráttum eru einungis sýnd mislæg vegamót við Þorlákshafnarveg í nýrri veglínu Hringvegar, ekki verða byggð mislæg vegamót í upphafi heldur tvöfalt hringtorg í plani.

Auk breikkunar Hringvegar á um 12 km kafla verða byggðir alls um 9 km af nýjum hliðarvegum og tengingum. Með því móti verður umferð innan sveitarinnar mun öruggari auk þess sem hliðarvegir nýtast að stórum hluta fyrir göngu- og hjólaleiðir. Með því móti verður til samfelld göngu- og hjólaleið milli þéttbýliskjarnanna Hveragerðis og Selfoss.

Byggð verða 4 ný vegamót við Hringveg.

  • tvöfalt hringtorg við Þorlákshafnarveg (38) hjá Hveragerði
  • hliðruð T-vegamót við Velli (Vallavegur og Ölfusborgarvegur)
  • hliðruð T-vegamót við Hvammsveg eystri (374) og Kirkjuferjuveg (3915)
  • Tvöfalt hringtorg við Biskupstungnabraut (35)

Alls verða byggðar 13 nýjar brýr og undirgöng:

  1. Göng undir Hringveg fyrir bíla hjá Hveragerði, vestan hringtorgs
  2. Göng undir Hringveg fyrir bíla hjá Hveragerði, austan hringtorgs
  3. Undirgöng fyrir gangandi og hestamenn hjá Hveragerði vestan hringtorgs
  4. Brú á Varmá á Hringvegi (við hlið núverandi brúar)
  5. Brú á Gljúfurá á Hringvegi (við hlið núverandi brúar)
  6. Brú á Gljúfurá á hliðarvegi norðan Hringvegar
  7. Brú á Bakkárholtsá á Hringvegi
  8. Undirgöng/brú á Hringvegi yfir hliðarveg við Kotströnd
  9. Göng undir Hringveg við Þórustaðanámu, bárustálsrör
  10. Göng undir Hringveg í landi Sandhóls, vestan Bakkárholtsár, bárustálsrör
  11. Reiðgöng undir Hringveg við Varmá, bárustálsgöng
  12. Reiðgöng undir Hringveg við Kögunarhól, bárustálsgöng
  13. Reiðgöng undir Hringveg í Þórustaðamýri, bárustálsgöng

Breikkun Hringvegar er í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaganna á svæðinu, Hveragerðisbæjar, Sveitarfélagsins Ölfuss og Sveitarfélagsins Árborgar.

Unnið verður að hönnun, samningum við landeigendur og öðrum undirbúningi 2016-2017 og framkvæmdir geta hafist í fyrsta lagi haustið 2017. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki 4-5 ár og þeim lokið 2021. Í framhaldi er svo gert ráð fyrir að byggð verði ný brú norðan við Selfoss og að byggður verði nýr Hringvegur frá Biskupstungnabraut austur fyrir Selfoss.

 


Tengd útboð


Verkframvinda

Verkframvinda 2016:
Á árinu 2016 var unnið að undirbúningi landakaupa, jarðtæknilegra rannsókna ásamt hönnun. Hönnun var boðin út um sumarið og samið við ráðgjafa í september.

Verkframvinda 2017:
Unnið varað forhönnun og verkhönnun, auk þess sem unnið var í samningum við landeigendur.

Verkframvinda 2018:
Unnið var að verkhönnun framkvæmdarinnar og samningaviðræður við landeigendur. 1. áfangi framkvæmda var boðinn út í nóvember 2018 og buðu 5 aðilar í verkið. Íslenskir aðalverktakar voru lægstbjóðendur og var samið við þá um verkið. Tilboðsupphæð var 1.361,2 m.kr. sem var 8,9% yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Verkframvinda 2019:
Unnið varað verkhönnun síðari áfangaframkvæmdarinnar ásamt samningaviðræðum við landeigendur. Framkvæmdir við 1. áfanga hófust
í janúar 2019 og var umferð hleypt á nýjan 2,5 km Hringveg milli Gljúfurholtsár og Varmár með aðskildum aksturstefnum í nóvember.2019. Byggð voru ný vegamót við Vallaveg og Ölfusveg ásamt breikkun brúar á Varmá, ný undirgöng fyrir gangandi og hesta við Velli og nýir hliðarvegir. Endanlegum frágangi og einstökum verkþáttum vegna 1. áfanga lauk árið 2020.

Verkframvinda 2020:

Framkvæmdir við 2. áfanga voru boðnar út í febrúar 2020 og tilboð opnuð í mars og buðu 3 aðilar í verkið. Tilboðsupphæð var 5.069 m.kr. um 96,6% af kostnaðaráætlun. Lengd útboðskaflans er 7,1 km. Um er að ræða nýbyggingu Hringvegar að hluta og endurgerð núverandi Hringvegar að hluta, gerð nýrra vegamóta við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri, gerð hringtorgs við Biskupstungnabraut, nýbyggingu Ölfusvegar, breytingu Þórustaðavegar og Biskupstungnabrautar sem og gerð heimreiða. Hluti verksins er bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveggja reiðganga úr stáli. Framkvæmdir hófust í maí 2020 og var að mestu unnið við fergingu vegarins. Áætluð verklok eru í september 2023. Framkvæmdir hófust á verkstað 16. apríl 2020 með vinnu við fyllingar í Þórustaðavegi. Í byrjun maí 2020 hófst einnig akstur fyllingarefnis í Ölfusveg. Samhliða þessu voru grafnir framræsluskurðir og gengið frá grjótsvelgjum til að tryggja framrás vatns í skurðum. Unnið var við fargfylllingar á Hringvegi. Þá var einnig hafist handa við gröft fyrir lögnum veitustofnana og gengið frá viðeigandi lögnum í skurði.

Verkframvinda 2021:
Eiginleg vinna við brúargerð hófst í byrjun árs með grefti fyrir brú á Gljúfurholtsá í Ölfusvegi og kláraðist vinna við þá brú á árinu. Einnig kláraðist að steypa brú á Gljúfurholtsá á Hringvegi. Vinna við Kotstrandarbrú hófst í febrúar og kláraðist á árinu að steypa undirstöður og stoðvegg að norðan. Vinna við undirbúning brúar á Bakkarholtsá hófst um miðjan september með hjáveitu árinnar og aðstöðusköpun og grafið var fyrir undirstöðum. Unnið var í fjarlægingu á fargfyllingum á Hringvegi 1 og hluta þess ekið í væntanlegt vegstæði um mýrarsvæði vestan við fyrirhugaða brú yfir Ölfusá. Talsverð vinna var í breytingum á vatnslögnum við Biskupstungnabraut og nýju hringtorgi þar. Reiðundirgöng við Árbæ voru kláruð á árinu og lokið var við gröft fyrir undirgöng um Þórustaðaveg. Í lok október var umferð hleypt á þennan hluta Ölfusvegar sem liggur frá Kirkjuferjuvegi til austurs og meðfram Ingólfsfjalli. Á árinu var unnið við uppbyggingu Hringvegar 1 undir Ingólfsfjalli og kláraðist undirbygging vegarins og náðist að leggja burðarlagsmalbik og steypa kantsteina við hringtorg við Biskupstungnabraut. Tíðarfar um haustið 2021 varð til þess að ekki var reynt að leggja slitlagsmalbik á þennan kafla eins og vonast hafði verið til. Unnið var í undirbyggingu Hringvegar 1 frá Kotströnd að Hvammsvegi eystri á árinu.

Verktaki: Íslenskir aðalverktakar.


Myndband af framkvæmdinni


Matsskýrsla

Lagt hefur verið mat mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og var matsskýrsla Vegagerðarinnar staðfest af Skipulagsstofnun árið 2010.


Fréttir