26. maí 2023
Nýr Suður­lands­vegur milli Hvera­gerð­is og Selfoss opnaður form­lega

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu í dag, 25. maí 2023, formlega nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss. Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.

Þó regnið hafi dunið á gestum og ræðufólki við opnun nýja Suðurlandsvegarins, braust sólin fram undan skýjunum rétt áður en Sigurður Ingi og Bergþóra fengu skæri í hönd til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum.

Bergþóra var afar ánægð að geta opnað veginn á þessum tímapunkti, fjórum mánuðum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Ég vil þakka ÍAV fyrir einstakt samstarf í þessari framkvæmd. Það er sérlega sætt að geta opnað veginn fyrir sumarið, það munar um minna,“ sagði Bergþóra og benti á að umferðin á þessum vegi hefði stökkbreyst á síðustu tuttugu árum og að með nýjum vegi myndi umferðaröryggi stóraukast.

Sigurður Ingi var einnig mjög ánægður með þessi tímamót enda ekur hann Suðurlandsveginn nánast daglega til og frá vinnu.

 

Sólin skein loks á gesti þegar skærin voru munduð til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum.
Mynd 1 af 10

Sólin skein loks á gesti þegar skærin voru munduð til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum. Mynd 1 af 10

Umferð aukist og slys tíð

Þessi framkvæmd var mjög aðkallandi. Umferð hefur aukist jafnt og þétt í gegnum árin á þessum kafla. Árið 2000 var árdagsumferð (meðalumferð á dag, yfir árið) 4.970 bílar á sólarhring, árið 2012 var talan komin í 6.462 en þá tók umferðin kipp vegna aukins straums ferðamanna og var komin í 10.342 bíla á sólarhring árið 2019. Næstu tvö ár voru óvenjuleg vegna Covid-19, en í fyrra, árið 2022, var umferðin orðin 10.753 bílar á sólarhring.

Suðurlandsvegurinn á þessum kafla hefur verið einn slysamesti vegur landsins. Þó hefur slysatíðni haldist nokkuð stöðug síðustu ár, en var mun hærri á fyrstu árum þessarar aldar. Má líklega þakka það umferðaröryggisaðgerðum eins og hjáreinum við gatnamót og fræsingu hvinranda milli akreina sem vekja ökumenn til vitundar um að þeir séu að aka yfir á rangan vegarhelming. Vonir standa til að alvarlegum slysum fækki enn frekar með tilkomu nýja vegarins. Má þar vísa í reynslu Vegagerðarinnar af aðskilnaði akstursstefna á Hellisheiði. Hún sýnir að þar hafa framanáárekstrar nánast fallið niður eftir að framkvæmdum lauk árið 2015. Framanáárekstrar hafa almennt valdið hvað verstu slysunum á vegum Vegagerðarinnar. Slysatíðnin sem slík á Hellisheiði hefur lítt lækkað sem má rekja til þess akstur utan í vegrið eru skráð sem slys, og oftast þá án meiðsla. Það sýnir að vegriðin gera sitt gagn og óhætt að fullyrða að einhver ökutæki hefðu annars farið á öfugan vegarhelming með ófyrirséðum afleiðingum.

Upplýsingar um framkvæmdina

Framkvæmdin nær um sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélagið Árborg og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvenn stór vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Fimm steyptar brýr og undirgöng ásamt tvennum reiðgöngum úr stáli teljast einnig til framkvæmdanna. Að auki voru gerðar miklar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja.

Hringvegur er byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegar.

Eins og áður sagði átti verkinu í heild að ljúka í september 2023 samkvæmt útboði. Verkið er því nokkuð á undan áætlun. Þá var stór hluti verksins, nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut og um fjögurra kílómetra kafli vegarins, tekinn í notkun í september á síðasta ári.

Auk verksins Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá var boðið út verkið; Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Hveragerði: Ölfusvegur um Varmá, sem snerist um nýbyggingu um 780 metra langs vegar og byggingu nýrrar 48 metra langrar brúar á Varmá norðan Suðurlandsvegar. Verktaki var Loftorka Reykjavík en nýja brúin var opnuð fyrir umferð í október 2022.

Inn í verkinu; Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá, eru eftirfarandi vegaframkvæmdir:

  • Breikkun Hringvegar í 2+1
  • Hringtorg við Biskupstungnabraut
  • Ný vegamót og tengingar við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri
  • Að- og fráreinar við Þórustaðaveg
  • Ölfusvegur með hjólareinum
  • Þórustaðavegur
  • Tenging við Biskupstungnabraut
  • Heimreiðar að Mæri, Hvoli og Þórustöðum
  • Eftirlitsstaðir við Hringveg
  • Áningarstaður við Ölfusveg

Vegir

  • Hringvegur verður 22 m að heildarbreidd.
  • Ölfusvegur verður með hjólareinum og engum öxlum, heildarbreidd 9 m.
  • Þórustaðavegur verður 7 m breiður.
  • Biskupstungnabraut verður 10 m breið.
  • Hringvegur (Biskupstungnabraut) frá hringtorgi að Selfossi verður 9,5 m breiður.

Brúarmannvirki, undirgöng og reiðgöng

  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Hringvegi. Gamla brúin var byggð árið 1967. Hún var rifin og byggð ný lengri og breiðari brú á sama stað. Nýja brúin er úr steinsteypu með eitt 12 m langt haf milli hliðarveggja. Brúarplatan er eftirspennt. Breidd brúarinnar er 23 m.
  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Ölfusvegi. Byggð var ný brú yfir Gljúfurholtsá vegna nýs Ölfusvegar. 10 m löng og 20,5 m breið.
  • Brú við Kotströnd á Hringvegi. Undirgöng fyrir akandi og hjólandi þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan Hringveg. Brúin er mótuð þannig að rýmið undir henni virki rúmt og bjart. Veggjunum er hallað svo rýmið er víðara upp undir lofti en við jörð. Stoðveggir ganga út frá brúnni og mæta jarðvegsfláum frá vegöxlum svo mannvirkið fellur að landinu með látlausum hætti.
  • Brú yfir Bakkárholtsá á Hringvegi. Byggð var ný brú yfir Bakkárholtsá vegna Hringvegar í nýju vegstæði. Auk þess  liggja undir brúna vegslóðar sitt hvoru megin við ána.
  • Reiðgöng við Kögunarhól undir Hringveg (stálgöng). Stálplöturæsið er um 37,7 m langt neðst og eru fláar á því beggja megin. Rjúfa þurfti gamla Hringveginn og grafa fyrir göngunum. Göngin ná stutt út úr vegfyllingunni beggja vegna.
  • Undirgöng fyrir bílaumferð við Þórustaðaveg undir Hringveg. Göngin eru úr slakbentri steinsteypu og eru 6,5 m milli hliðarveggja. Lengd ganganna er 26,5 m.
  • Reiðgöng við Árbæ undir Hringveg (stálgöng).

Einnig var um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. Um var að ræða lagnir Veitna, Mílu, Gagnaveitu Reykjavíkur, Ölfus, Árborgar, Árbæjarhverfis og Rariks.

Gert er ráð fyrir að göngu- og hjólaumferð verði á hliðarvegum. Reiðgöng undir Suðurlandsveg munu tengja saman reiðleiðir beggja vegna vegarins og gera hestaferðir mun öruggari.

Nánari upplýsingar má finna í þessu skemmtilega myndbandi sem Vegagerðin lét vinna um framkvæmd Suðurlandsvegar.