Umferð verður hleypt á nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan kafla Suðurlandsvegar fimmtudaginn 8. september milli klukkan 15 og 16. Kaflinn nær frá hringtorginu og um fjóra kílómetra í átt að Hveragerði. Verkið er nokkuð á undan áætlun en vonir standa til að opna allan veginn milli Hveragerðis og Selfoss fyrir árslok.
Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.
Framkvæmdin nær um sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélagið Árborg og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvö stærri vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Til framkvæmdanna teljast einnig bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveimur reiðgöngum úr stáli, auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja. Hringvegur er byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegi.
Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og eru nokkuð á undan áætlun. Enn á eftir að steypa brúargólf á tvær brýr, yfir Bakkárholtsá og við Kotströnd. Þá á eftir að malbika veginn frá Kotströnd að Kirkjuferjuvegi en sá hluti Hringvegar var byggður nýr frá grunni.
Verkinu í heild á að ljúka í september 2023 samkvæmt útboði og verksamningi en útlit er fyrir að umferð verði hleypt á allan kaflann fyrir árslok en gera má ráð fyrir einhverjum frágangi fram eftir árinu 2023.
Samhliða þessum framkvæmdum er unnið að verkinu Hringvegur (1), Biskupstungnabraut-Hveragerði: Ölfusvegur um Varmá. Það er nýbygging um 780 metra langs vegar frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir austan Varmár. Stærstur þáttur í því verki er bygging nýrrar brúar á Varmá norðan Suðurlandsvegar.
Slitlag á Hringvegi, Biskupstungnabraut og hringtorgi verður tvöfalt malbik, samtals 110 mm þykkt. Á Ölfusvegi og Þórustaðavegi verður tvöföld klæðing með flokkaðri möl úr möluðu bergi, samtals 30 mm þykk
Inn í verkinu eru eftirfarandi vegaframkvæmdir:
Vegir
Brúarmannvirki, undirgöng og reiðgöng
Einnig er um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. Um er að ræða lagnir Veitna, Mílu, Gagnaveitu Reykjavíkur, Ölfus, Árborgar, Árbæjarhverfis og Rarik.