Verkið snýst um færslu Hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Helstu verkþættir eru nýbygging 3,7 km Hringvegar, bygging nýrrar 330 m langrar stagbrúar yfir Ölfusá og um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gerð verða ný vegamót við Hringveg austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt.
Efnisyfirlit
Markmiðið með framkvæmdunum er að auka afkastagetu Hringvegar, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi. Helsta breytingin sem framkvæmdin hefur í för með sér er að Hringvegur (1) styttist um 1,2 km og ferðatími styttist að lágmarki um fimm til sex mínútur en mun meira á álagstímum. Einnig mun greiðast úr þeim umferðarteppum sem oft hafa skapast við gömlu Ölfusárbrúna.
Brúin yfir Ölfusá verður 330 m löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum akstursstefnum, ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum. Brúin verður hönnuð þannig að hún geti borið fjórar akreinar til framtíðar verði þörf á því.
Verkframvinda: Á árunum 2014 – 2016
var unnið að frumdrögum brúar og undirbúningi landakaupa. Verkframvinda 2017: Unnið að forhönnun brúar og undirbúningi landakaupa.
Verkframvinda 2018:
Var einungis unnið að landakaupum. Verkframvinda 2019: Unnið að forhönnun brúar og landakaupum.
Verkframvinda 2020:
Kaup á landi og fornleifauppgröftur.
Verkframvinda 2021:
Unnið var að forhönnun brúar á Ölfusá ásamt vegtengingum. Sótt var um framkvæmdaleyfi vegna vegfyllinga milli Biskupstungnabrautar og Ölfusár og var umframefni úr fargfyllingum í framkvæmdinni milli Biskupstungnabrautar og Gljúfurholtsár ekið í nýtt vegstæði Hringvegar.