24. nóvember 2023
Útboðs­gögn vegna Ölfusár­brúar send þátt­takend­um

Útboðsgögn vegna hönnunar og smíði Ölfusárbrúar voru send út í vikunni til þeirra fimm fyrirtækja sem sóttu um að fá að taka þátt í útboðinu. Skila á tilboðum í mars og áætlað að verki ljúki í september árið 2027.

Vegagerðin auglýsti alútboð vegna hönnunar og byggingar nýrrar brúar á Ölfusá á Evrópska efnahagssvæðinu þann 3. mars síðastliðinn.  Þann 18. apríl voru opnaðar umsóknir og bárust umsóknir frá fimm þátttakendum sem allir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og voru metnir hæfir.

Eftirfarandi fyrirtæki sóttu um þátttöku í útboðinu:

  • Hochtief Infrastructure GmbH, Essen, Þýskalandi
  • IKI Infrastructure Systems Co., Ltd, Tokyo, Japan
  • Ístak hf. – Per Aarsleff A/S – Freyssinet Int., fyrir hönd óstofnaðs félags, Reykjavík
  • Puentes y Calzada Infraestructuras, S.L.U., Spáni
  • ÞG verktakar ehf., Reykjavík

Fyrr í vikunni var þessum fimm þátttakendum send útboðsgögn vegna samkeppnisútboðsins og er gert ráð fyrir að tilboðum verði skilað þann 12. mars 2024 og eru áætluð verklok í september 2027.

Vegagerðin fékk framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Árborg og Flóahreppi í september síðastliðnum að lokinni grenndarkynningu þar sem engar athugasemdir bárust.

Verkið snýst um færslu Hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Meðal helstu verkþátta eru nýbygging 3,7 km Hringvegar, bygging nýrrar 330 m langrar stagbrúar á Ölfusá og um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Gera þarf ný vegamót við Hringveg austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Einnig er gert ráð fyrir lögnum veitufyrirtækja.

Markmiðið með framkvæmdunum er að auka umferðarrýmd, aðskilja akstursstefnur og bæta umferðaröryggi.

Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum aksturstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum.

Gert er ráð fyrir steyptum endastöplum, brúargólfi með stálbitum og steyptu gólfi og turni úr stáli. Við forhönnun brúarinnar var miðað við aðstæður á svæðinu þar sem búast má við bæði jarðskjálftum og flóðum. Í brúnni er gert ráð fyrir jarðskjálftaeinangrun og forspenntum bergfestum í undirstöðum turnsins.

Helsta breytingin sem verður við þessa framkvæmd er að Hringvegur (1) styttist um 1,2 km og ferðatími styttist að lágmarki um fjórar til fimm mínútur. Einnig mun greiðast úr þeim umferðarteppum sem oft hafa skapast við gömlu Ölfusárbrúna en gert er ráð fyrir að umferð þyngri ökutækja verði ekki leyfð á gömlu brúnni þegar sú nýja hefur verið tekin í notkun.

Teikning af brúnni séð úr suðri í ljósaskiptunum

Teikning af brúnni séð úr suðri í ljósaskiptunum

Teikning af brúnni séð úr suð-austri

Teikning af brúnni séð úr suð-austri