20. nóvember 2024
Samið um bygg­ingu nýrrar brúar yfir Ölfusá

Skrifað var undir  verksamning vegna byggingar brúar yfir Ölfusá í dag. Við sama tækifæri var tekin fyrsta skóflustunga að verkinu.  Í kjölfar undirritunar hefst fullnaðarhönnun mannvirkja en gera má ráð fyrir að undirbúningsframkvæmdir á verkstað hefjist innan skamms. Verklok eru áætluð í október 2028.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra og Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra og Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- efnahags og innviðaráðherra og Þorvaldur Gissurarson, framkvæmdastjóri ÞG Verks, skrifuðu undir verksamning vegna verksins Hringvegur (1) um Ölfusá í golfskálanum við Svarfhólsvöll í dag, 20. nóvember  2024. Fjöldi manns var viðstaddur undirritunina enda hafa margir beðið þessarar stundar með óþreyju.

Bergþóra Þorkelsdóttir var ánægð á þessum tímamótum:

„ÞG verktakar eru reyndir verktakar sem hafa byggt nokkrar brýr fyrir Vegagerðina undanfarin ár. Í þessu verki þurfa þeir að reiða sig á hæfni erlendra aðila að auki fyrir svona sérstaka brúargerð. Þeir hafa sett saman teymi með mikla reynslu af sambærilegum mannvirkjum og við höfum því fulla trú á að þeir leysi þetta vel úr hendi.“

Þorvaldur hlakkaði til að hefjast handa:

„Við hjá ÞG verktökum erum full tilhlökkunar að ráðast í þetta metnaðarfulla verkefni. Bygging Ölfusárbrúar er flókið og krefjandi verk, og um leið glæsilegt mannvirki og mikilvæg samgöngubót.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók fyrstu skóflustunguna með gröfu við brúarstæði Ölfusárbrúar í landi Laugardæla. Að því loknu var boðið til hressingar í golfskálanum. Sigurður Ingi sagði við það tækifæri meðal annars:

„Nýja Ölfusárbrúin mun auka öryggi og greiða umferða fyrir alla landsmenn um Suðurland. Þá færir hún íbúum Selfoss og Suðurlands aukin lífsgæði með því að umferð þjóðvegarins er færð úr miðbænum. Ný brú þarf að mæta aukinni umferð og standast mikið álag af völdum íslenskra náttúruafla, þ.á.m. flóðahættu, ísstíflum og jarðskjálftum. Hönnun brúarinnar sem stagbrú tekur mið af þessu og er því mjög vel til þess fallin að mæta álagi af þessu tagi. Við þurfum góðar brýr fyrir samfélagið okkar og þessi brú er í senn tímabær og glæsileg.“

Um 130 manns mættu til að fylgjast með undirritun verksamnings og skóflustungu vegna nýrrar brúar yfir Ölfusá.

Um 130 manns mættu til að fylgjast með undirritun verksamnings og skóflustungu vegna nýrrar brúar yfir Ölfusá.

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur fyrstu skóflustunguna að nýrri brú yfir Ölfusá 20. nóvember 2024.

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur fyrstu skóflustunguna að nýrri brú yfir Ölfusá 20. nóvember 2024.

Verkefnið Hringvegur (1) um Ölfusá

Ný Ölfusárbrú er hluti af verkefninu Hringvegur (1) um Ölfusá sem felst í að færa Hringveginn út fyrir þéttbýlið á Selfossi. Byggð verður 330 metra löng og 19 metra breið brú, nýr 3,7 km vegarkafli auk um 1 km af öðrum tveggja akreina vegum. Ný vegamót verða gerð austan Selfoss, undirgöng undir Hringveg fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi. Auk umferðar mun brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt.

Ný Ölfusárbrú mun gjörbylta bílaumferð um Selfoss og Suðurland allt. Henni fylgir aukið umferðaröryggi, m.a. með aðskilnaði akstursstefna og styttri ferðatíma. Auk þess dregur verulega úr umferðartöfum og mengun í bænum. Þá styrkir hún atvinnulíf á svæðinu og eflir lífsgæði íbúa og gesta á Suðurlandi.

Núverandi brú var byggð fyrir tæpum 80 árum og hefur þjónað sínu hlutverki með glæsibrag. Hins vegar hefur umferð vaxið gríðarlega hratt á síðustu árum með fjölgun íbúa og ferðamanna á Suðurlandi en daglega fara nú um 14.500 ökutæki um brúna. Til framtíðar má gera ráð fyrir að umferð um svæðið muni aukast enn frekar með fjölgun íbúa og ferðafólks.

Framkvæmdin við nýju brúna er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins Árborgar og Flóahrepps, auk Landsnets, Selfossveitna, Mílu, HS veitna og RARIK.

Verklok eru áætluð 2. október 2028.

Verksamningur, fjármögnun og framkvæmdakostnaður

Vegagerðin óskaði eftir þátttakendum í samkeppnisútboð í mars 2023. Margir sýndu verkefninu áhuga og fimm aðilar voru metnir hæfir. Þegar tilboð voru opnuð í mars 2024 hafði einn aðili sent inn tilboð; ÞG Verk.  Í framhaldi fóru fram samningsviðræður sem lauk nú fyrir stuttu. Þær samningsviðræður leiddu til frekari hagkvæmni í verkinu frá upphafstilboði.

Um er að ræða alútboð þar sem ábyrgð á endanlegri hönnun mannvirkja er á höndum verktakans og hefur ÞG Verk ráðið til sín hönnuði til að fullhanna verkið. Alþjóðlega hönnunar- og ráðgjafafyrirtækið Ramboll mun hanna brú yfir Ölfusá. Verkfræðistofan Verkís annast hönnun vega, jarðtækni auk annarra brúa og undirganga. VSL, alþjóðlegt fyrirtæki með sérþekkingu í hönnun og byggingu kapalbrúa, mun starfa með ÞG verktökum að verkinu.

Vegagerðin sinnir umsjón og eftirliti með hönnun og framkvæmdum.

Heildarupphæð verksamningsins er 15,7  ma.kr. og hluti af honum er kostnaður veitufyrirtækja og sveitarfélaga sem tóku þátt í útboðinu með Vegagerðinni. Þar sem þetta er alútboð er verkhönnun mannvirkjanna  á höndum verktakans auk framkvæmdarinnar og fjármögnunar framkvæmdanna á verktíma. Hönnun mannvirkja hefst strax að lokinni undirritun og fljótlega hefjast undirbúningsframkvæmdir og uppsetning aðstöðu á verkstað.

Framkvæmdin er boðin út á grundvelli laga um samvinnuverkefni og er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdina með gjaldtöku af umferð.

Áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu Ölfusárbrúar og tengda vegi í heild sinni er 14,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2024. Þar af er brúin talin kosta um 8,4 ma.kr.  Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 ma.kr. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 ma.kr. sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð.