Vegagerðin endurbyggir og leggur nýjan Vestfjarðaveg yfir Dynjandisheiði sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði og langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði. Vegna skipulagsmála og leiðarvals var fyrst horft á leiðina frá Flókalundi að Mjólkárvirkjun ásamt tengingu við Bíldudalsveg, um 33 km leið.
Samtals 35,2 km langur vegur í nýbyggingu. Fækkun einbreiðra brúa um 8. Stytting á leið 2 km.
Verkframvinda 2021: Upphaflegu útboðsverki var að mestu lokið en ekki náðist að ljúka seinna lagi klæðingar og ýmsum frágangi sem færist á næsta ár. Þessu til viðbótar var bætt við um 2,4 km á kaflanum við Þverdalsvatn upp fyrir vegamót við Bíldudalsveg.
Verkframvinda 2020: Matsskýrsla vegna Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði og Bíldudalsvegar var lögð fram í mars 2020 og skilaði Skipulagsstofnun áliti í júlí 2020. Fyrsti áfangi vegar um Dynjandisheiði sem er annars vegar um 5,7 km langur kafli við Þverdalsá (vegkafli 60-35) og hins vegar um 4,3 km langur kafli fyrir Meðalnes (vegkafli 60-38) var boðinn út í júlí. Framkvæmdir hófust síðan í byrjun október 2020. Áfram var unnið að hönnun og undirbúningi fyrir næstu áfanga.