Vegagerðin áformar að leggja Seyðisfjarðarveg (93) í Múlaþingi frá Egilsstöðum í jarðgöngum undir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar. Fjarðarheiði er hæsti fjallvegur á Íslandi milli þéttbýlisstaða (620 m.y.s) þar sem aðeins er um eina vegtengingu að ræða og er eftir því snjóþungur. Jarðgöngin verða 13,3 km löng og hafa munna við Dalhús á Fljótsdalshéraði og við Gufufoss Seyðisfjarðar megin.
Með framkvæmdinni er stefnt að því að bæta vegasamgöngur milli Seyðisfjarðar og annarra byggðarlaga á Austurlandi. Með jarðgöngum undir Fjarðarheiði verða samgöngur áreiðanlegri og öruggari. Að loknum framkvæmdum verður mögulegt að halda veginum greiðfærum á milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar allan ársins hring. Framkvæmdin mun styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.
Núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar, eins og þær eru í dag, um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.
Markmið framkvæmdarinnar er að auka umferðaröryggi vegfarenda, tryggja greiðari samgöngur og bæta vegasamband, bæta sambúð vegar og umferðar við íbúa og umhverfi.
Fyrirhuguð eru 13,3 km jarðgöng undir Fjarðarheiði milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar. Göngin munu hafa munna við Dalhús Fljótsdalshéraðs megin og við Gufufoss Seyðisfjarðar megin. Jarðgöngunum fylgir breyting á núverandi vegakerfi.
Á Fljótsdalshéraði verður Hringvegur 1 færður suður fyrir Egilsstaði og nýr Seyðisfjarðarvegur að jarðgöngum frá Hringvegi 1 mun liggja um brú yfir Eyvindará. Nýir vegir í Fljótsdalshéraði utan ganga verður um 6,9 km, ásamt nýrri ca. 115 m langri brú yfir Eyvindará.
Vegur frá gangamunna við Gufufoss til Seyðisfjarðar verður færður ofar í landið til að jafna hæðarlegu og minnka bratta vegar. Nýr vegur frá jarðgöngum til Seyðisfjarðar verður um 3,5 km langur.
Að framkvæmdum loknum er gert ráð fyrir að núverandi vegur yfir Fjarðarheiði leggist af sem stofnvegur yfir háheiðina. Honum verður þó áfram haldið við og þjónustaður sem landsvegur. Vegurinn Seyðisfjarðar megin að skíðasvæðinu í Stafdal verður tengivegur og honum haldið opnum að vetrarlagi í samræmi við þjónustustig hans. Að sumarlagi má gera ráð fyrir að vegurinn yfir Fjarðarheiði verði notaður sem ferðamannaleið.
Áætlaður framkvæmdatími er um 7 ár. Áætlaður stofnkostnaður er 46,5 ma. kr (skv. þingsályktunartillögu að Samgönguáætlun 2024-2038). Verkefnið er á tillögu að samgönguáætlun 2024-2038 og áætlað að það fari í framkvæmd 2025. Verkefnið er utan fjárhagsramma samgönguáætlunar og gert er ráð fyrir að jarðgöng á jarðgangaáætlun verði fjármögnuð með gjaldtöku af umferð. Fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð. Stefnt hefur verið að hóflegri gjaldtöku vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Áform um jarðgöng til Seyðisfjarðar hafa verið til skoðunar hjá Vegagerðinni með hléum í um 40 ár. Með skýrslu EFLU verkfræðistofu árið 2011 kom fram tillaga um jarðgöng undir Fjarðarheiði með ganga munna Héraðs megin við Dalhús í stað gangamunna ofan við Miðhús eins og aðalskipulag Fljótsdalshérað gerði ráð fyrir. Vegagerðin kynnti fulltrúum Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar 2015 hugmyndir að þeirri gangaleið ásamt mögulegum veglínum að gangmunnum.
Árin 2010 – 2018 fóru fram helstu jarðfræðirannsóknir vegna jarðganganna. Frumhönnun á vegtengingum lauk 2018. Forhönnun á jarðgangaverkefninu hófst 2019 og lauk sumarið 2020. Ákveðið var að munnasvæði jarðganga Fljótsdals megin yrði við Dalhús og Seyðisfjarðar megin við Gufufoss.
Vinna við umhverfismat hófst 2020 og var umhverfismati lokið 2023.
Verkhönnun á jarðgöngum fór fram 2021 – 2022. Vegir utan ganga og brú yfir Eyvindardalsá eru í verkhönnun.
Aðalskipulagsbreyting miðað við legu jarðganga og nýrrar vegagerðar utan jarðganga lá fyrir nóvember 2023.
Aðalskipulag miðað við legu jarðganga og nýrra vega lá fyrir nóvember 2023.