Vegagerðin hefur unnið skýrslu um mat á umhverfisáhrifum um Fjarðarheiðargöng og skilað til Skipulagsstofnunar. Frestur almennings og umsagnaraðila til að skila umsögnum er til 5. júlí 2022. Um Fjarðarheiði liggur hæsti fjallvegur á Íslandi til þéttbýlisstaðar þar sem aðeins er um eina vegtengingu að ræða. Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Austurlandi og hafa þar með jákvæð áhrif á samfélagið.
Vegagerðin áformar að leggja Seyðisfjarðarveg (93) í jarðgöngum undir Fjarðarheiði en um hana liggur nú hæsti fjallvegur á Íslandi til þéttbýlisstaðar þar sem aðeins er um eina vegtengingu að ræða, og er eftir því snjóþungur. Framkvæmdin er í Múlaþingi, sameinuðu sveitarfélagi Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps.
Með framkvæmdinni er stefnt að því að bæta vegasamgöngur milli byggðarinnar á Seyðisfirði og annarra byggðarlaga, einkum að vetrarlagi. Núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar, eins og þær eru í dag, um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.
Jarðgöngin verða 13,3 km löng. Í Fljótsdalshéraði eru þrír valkostir til skoðunar um að tengja jarðgöngin við Egilsstaði og á Seyðisfirði eru tveir valkostir til skoðunar. Valkostaumfjöllun Seyðisfjarðarmegin tók breytingum frá matsáætlun þar sem valkosti um nýja veglínu var hnikað lítillega til auk þess sem bætt var við valkosti um lagfæringu á núverandi vegi, til samanburðar í umhverfismati. Ný vegagerð utan ganga Héraðsmegin verður á bilinu 4,1-10,1km, háð leiðarvali og 2,8-3,5 km Seyðisfjarðarmegin.
Í umhverfismati eru metin umhverfisáhrif á fjölmarga umhverfisþætti.
Neikvæð áhrif valkosta koma helst fram í gróðurfari, landslagi og ásýnd, landnotkun og fornleifum. Neikvæð áhrif koma helst fram Héraðsmegin, þar sem allir valkostir þar fela að einhverju leyti í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki eða votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. náttúruverndarlaga. Jákvæð áhrif valkosta koma helst fram á ferðaþjónustu og samfélag.
Í umhverfismatsskýrslu er einnig gerður ítarlegur samanburður á öllum valkostum m.t.t. til umhverfisáhrifa, umferðaröryggis, kostnaðar og samræmi við veghönnunarreglur.
Með tilliti til þeirra þátta sem hér hafa verið til skoðunar leggur Vegagerðin til að Suðurleið Héraðsmegin og ný veglína Seyðisfjarðarmegin verði aðalvalkostur framkvæmdarinnar. Helstu rök fyrir þeirri tillögu felast í jákvæðum áhrifum Suðurleiðar á samfélag, umferðaröryggi auk kostnaðar og þjóðhagslegrar hagkvæmni.
Framundan er kynningartími umhverfismatsskýrslu, sem er helsti samráðsvettvangur matsferilsins, þar sem fram munu koma mikilvæg sjónarmið sem munu nýtast við endanlega ákvörðunartöku um aðalvalkost. Þá er einnig stefnt á frekara samtal við sveitarfélagið og aðra leyfisveitendur þegar álit Skipulagsstofnunar um matsferlið liggur fyrir, og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á.
Helstu áhrif aðalvalkostar koma fram vegna rasks á viðkvæmu vistlendi Héraðsmegin, breytinga á landslagi og ásýnd auk rasks á fornleifum. Nauðsynlegar mótvægisaðgerðir í þeim tilgangi að lágmarka neikvæð áhrif framkvæmdar, eru endurheimt votlendis og skóglendis, sértækar aðgerðir og verklags vegna staðsetningu framkvæmdasvæðis innan vatnsverndar á Seyðisfirði, og þær aðgerðir sem Minjastofnun Íslands telur nauðsynlegar vegna rasks á fornleifum.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Austurlandi og hafa þar með jákvæð áhrif á samfélagið. Með jarðgöngum undir Fjarðarheiði verða samgöngur áreiðanlegri og öruggari. Að loknum framkvæmdum verður mögulegt að halda veginum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar opnum allan ársins hring. Framkvæmdin mun styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.
Umhverfismatsskýrsla um Fjarðarheiðargöng var send Skipulagsstofnun 13. maí 2022. Skipulagsstofnun kynnti framkvæmdina og umhverfismatsskýrsluna með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu 23. maí 2022.
Umhverfismatsskýrslan liggur frammi til kynningar frá 23. maí 2022 til 5. júlí 2022 á skrifstofu Múlaþings og hjá Skipulagsstofnun. Umhverfismatsskýrslan er aðgengileg á vefsíðu Skipulagsstofnunar: www.skipulag.is, á vefsíðu Vegagerðarinnar og á vefsjá framkvæmdaraðila: https://fjardarheidargong.netlify.app/.
Umsagnir almennings og umsagnaraðila skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 5. júlí 2022 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.