Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg stendur að byggingu göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut. Brúin verður staðsett um það bil miðja vegu milli gatnamóta Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar. Með tilkomu brúarinnar verður gönguleið milli Tranavogs og Snekkjuvogs. Brúin er ætluð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og er hlutverk hennar m.a. að tryggja gönguleið skólabarna í Vogaskóla. Stigahús og lyftustokkur verða við báða enda brúarinnar, sem verður yfirbyggð.
Vinna við tímabundna göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut hófst í ágúst síðastliðnum og er stefnt að því að hún verði opnuð formlega í apríl 2025. Brúin tengist Snekkjuvogi/Barðavogi í vestri og Tranavogi/Dugguvogi í austri. Skiltabrúm verður komið fyrir sitt hvoru megin við hana til að varna því að ökutæki rekist upp í brúna verður. Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk.
Brúin mun bæta umferðaröryggi verulega fyrir vegfarendur milli hinnar nýju Vogabyggðar og Vogahverfis, ekki síst fyrir skólabörn. Hún verður yfirbyggð, með lyftu og tröppum og verður áhersla á jákvæða upplifun vegfarenda og að innra rými verði aðlaðandi. Góð lýsing verður við brúna.
Framkvæmdin er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og heyrir undir verkefni Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.