Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki, skrifuðu undir verksamning vegna göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut í Reykjavík þann 31. júlí sl. Framkvæmdir hefjast nú í ágúst og endanlega verklok eru áætluð í apríl 2025. Brúin er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar.
Verkið snýst um byggingu göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut, sem tengist við Snekkjuvog/Barðavog í vestri og Tranavog/Dugguvog í austri. Brúin mun bæta umferðaröryggi verulega, ekki síst fyrir skólabörn í Vogabyggð.
Brúin verður yfirbyggð og við báða enda hennar verður stigahús og lyfta. Góð lýsing verður á og við brúna. Verkís hannaði mannvirkið og Ístak mun sjá um framkvæmdir. VBV verkfræðistofa hefur eftirlit og umsjón á sinni könnu. Vegagerðin hefur yfirumsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.
Til að varna því að ökutæki rekist upp í brúna verður skiltabrúm komið fyrir sitt hvoru megin við hana. Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk.
Verkið er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu.