Vegagerðin áformar í samvinnu við Reykjavíkurborg að byggja göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut. Brúin verður staðsett um það bil miðja vegu milli gatnamóta Súðarvogs og Kleppsmýrarvegar. Með tilkomu brúarinnar verður gönguleið milli Tranavogs og Snekkjuvogs.
Brúin er ætluð fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og er hlutverk hennar að tryggja gönguleið skólabarna í Vogaskóla. Stigahús og lyftustokkur verða við báða enda brúarinnar, sem verður yfirbyggð.
Samkvæmt regulgerð er hámarkshæð ökutækja 4,2 metrar. Til að varna því að ökutæki rekist upp í brúna verður skiltabrúm komið fyrir sitthvoru megin við göngubrúna. Skilabrýrnar eru lægri en sjálf göngubrúin þannig að of há ökutæki munu rekast í skiltabrúna.
Fríhæð undir skilabrú verður 5,5 metrar. Fríhæð undir viðvörunarslá verður 5,2 metrar.
Vegagerðin og Reykjavíkurborg biðla til verktaka og flutningsfyrirtækja að kynna þessar hæðartakmarkanir fyrir sínu starfsfólki.
Full ástæða er til þess að hvetja ökumenn stærri bíla til þess að setja niður palla á vörubílum, pakka saman bílkrönum og svo framvegis, þannig að ekki komi til óhappa vegna þessara hæðartakmarkana.
Verkfræðistofan Verkís hannaði mannvirkið. Ístak mun sjá um framkvæmdir. Eftirlit og umsjón með verkinu hefur VBV verkfræðistofa. Vegagerðin hefur umsjón með verkinu fyrir hönd verkkaupa.
Skrifað undir verksamning vegna göngu- og hjólabrúar yfir Sæbraut