Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í maí dróst saman um 1,5 prósent. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem mælist samdráttur á svæðinu sem er ólíkt því sem gerðist á Hringveginum. Eigi að síður hefur umferðin fyrstu fimm mánuði ársins aukist um 5,3 prósent sem er veruleg aukning.
Milli mánaða 2022 og 2023
Annan mánuðinn í röð dregst umferð saman á höfuðborgarsvæðinu en 1,5% samdráttur mældist í nýliðnum maí miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Mest dregst umferð saman um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi en minnst um snið ofan Ártúnsbrekku.
Umferð eftir vikudögum
Samdráttur mælist í flestum vikudögum, en minniháttar aukning mældist á fimmtudögum og laugardögum. Mest dregst umferð saman á mánudögum eða um 11,5%.
Hlutfallslegur samdráttur á virkum dögum og helgum er þó svipaður.
Umferð frá áramótum
Af maí mánuði liðnum hefur umferð aukist um 5,3% frá áramótum sem er um tvisvar sinnum meiri en meðaltalsaukningin, á þessum árstíma, hefur verið frá árinu 2005.
Horfur út árið 2023
Spálíkan umferðardeildar gerir ráð fyrir að umferð á höfuðborgarsvæðinu árið 2023 gæti orðið um 4% meiri en hún var á síðasta ári.
Í ljósi þess að umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman, miðað við árið á undan, tvo mánuði í röð, er freistandi að velta fyrir sér hvort að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans séu farnar að draga úr umsvifum á svæðinu, sem aftur hafi leitt til minni umferðar. Niðurstaðan gæti því orðið minni aukning, en spálíkan gerir ráð fyrir núna.