Tilgangur þessa verkefnis er að auka skilning okkar á umfangi, landmótun og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi, og sögu afjöklunar undir lok síðasta jökulskeiðs. Þetta er gert með því að kortleggja og rannsaka jökulræn setlög og landform upp af Vopnafirði, Bakkaflóa, Þistilfirði og á Jökuldalsheiði með margvíslegum jarð- og jarðeðlisfræðilegum aðferðum. Unnið er út frá tveimur meginrannsóknarspurningum og verkefninu skipt í tilheyrandi verkþætti: 1) Hvað einkennir landmótun svæðisins og dreifingu setlaga og landforma, og hvernig tengist hún legu, virkni og hörfun fornra ísstrauma? Þessum spurningum er svarað með ítarlegri kortlagningu setlaga og landforma til að skýra landmótun svæðisins, legu fornra ísstrauma og afstæðan aldur þeirra. 2) Hvað einkennir setgerð og byggingu þeirra landforma sem ísstraumar hafa myndað? Hér er setfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum beitt til að varpa ljósi á setgerð og byggingu landforma og þau ferli sem stuðla að auknum skriðhraða og mótun lands undir hraðskreiðum jöklum. Verkefnið aflar mikilvægra upplýsinga um landmótun og jarðgrunn svæðsins, dreifingu setlaga og landforma sem mörg hver hafa
hagnýtt gildi fyrir ýmis konar framkvæmdir og mannvirkjagerð, sem og náttúruvernd.
Ívar Örn Benediktsson - Jarðvísindastofnun Háskólans
Framvinduskýrsla fyrir árin 2019-2021