Verkefnið snýr að neðansjávarjarðfræði- og jarðvárkortlagningu í Seyðisfirði og Norðfirði. Firðirnir eiga það sameiginlegt að þar má sjá greinileg merki um
neðansjávarskriður sem hugsanleg jarðvá stafar af. Eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins er að varpa ljósi stærð og umfang skriðanna, ásamt því að kortleggja og bæta þekkingu á botngerð og strandgerð fjarðanna. Meginniðurstaða verkefnisins er falin í útgáfu á þrennskonar mismunandi kortum af fjörðunum báðum, þ.e. jarðfræðiog jarðvárkorti, botngerðarkorti og strandgerðarkorti ásamt með jarðfræðiskýrslu. Vonast er til að þessar grunnathuganir nýtist við almennt mat á jarðvá og umhverfisáhrifum á viðkomandi stöðum og að litið verði til þeirra varðandi skipulag, staðarval og ýmsar framkvæmdir í eða við sjó. Alls voru 33 skriður kortlagðir, 26 í Seyðisfirði og 7 í Norðfirði, og helstu tölulegum upplýsingum safnað, s.s. um flatarmál, mestu lengd, úthlaupshorn o.fl. Skriðurnar skiptast í tvo flokka, þ.e. skriður sem fallið hafa af landi í sjó fram og skriður sem fallið hafa úr óstöðugum sethjöllum neðansjávar. Þótt ekki séu til staðfest tilfelli frá sögulegum tíma um neðansjávarskriður í íslenskum fjörðum sýna þessar rannsóknir að slíkar skriður hafa orðið fyrr á tímum. Þær benda einnig til að þar sem skriður hafa fallið eru líkur á að þær endurtaki sig. Hér er því á ferðinni náttúruvá sem þarf að hafa vakandi auga með.
Ögmundur Erlendsson, Árni Hjartarson, Anett Blischke, Guðmundur Birkir Agnarsson - ÍSOR
nr_1800_873_kortlagning-a-jardfraedi-hafsbotnsins-i-seydisfirdi-og-nordfirdi-nedansjavarskridur-botngerd-og-strandgerd.pdf
Sækja skrá