PDF · maí 2019
Umhverf­is- og samfé­lags­legur ávinn­ingur íslenskra orku­jurta

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá fiskiskipum og landbúnaði er um 23% af heildarlosun landsins sem er um það bil það sama og heildarlosun frá vegasamgöngum á Íslandi árið 2017. Ljóst er að þrekvirki þarf að vinna til að Ísland uppfylli skuldbindingar sínar í loftslagsmálum en hluti aðgerða sem settar eru fram í aðgerðaráætlun stjórnvalda snúa að innlendri eldsneytisframleiðslu, orkuskiptum ferja, aukinni hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í skipum og rafvæðingu hafna.

Innlend eldsneytisframleiðsla getur verið úr úrgangi og plöntum, s.s. repju og öðrum orkuplöntum. Gerðar hafa verið tilraunir á ræktun repju hérlendis, m.a. á Þorvaldseyri og Teig III í Fljótshlíðinni, með góðum árangri. Lífdísil hefur þann kost að hefðbundnar dísilvélar geta brennt því með minni umhverfisáhrifum. Þá hafa verið gerðar greiningar á nýtingu repjuolíunnar á skipavélar meðal annars en umhverfis- og samfélagsleg áhrif eða ávinningur hefur takmarkað verið skoðað.

Í verkefninu er framkvæmd tilviksrannsókn á ræktun repju á Flatey á Mýrum og lagt mat á umhverfisog samfélagsleg áhrif verkefnisins. Ræktunin skilar neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda um 23tonn CO2e og hefur verkefnið jákvæð áhrif á nærsamfélagið en þessar niðurstöður gefa góð fyrirheit um frekari uppbyggingu og ræktun repju. Þá er lagt mat á rekstur ferja Vegagerðarinnar og nýtingar lífdísil á þær en rækta þyrfti tæpa 4.500 hektara af landi til að framleiða olíu á allan flotann. Sú ræktun og nýting myndi draga úr losun frá ferjunum um 13 þúsund tonn og hefði möguleika á að skila Vegagerðinni hagnaði upp á 410 milljónir árlega ef aðrar afurðir en olían væru seldar.

Umhverfis- og samfélagslegur ávinningur íslenskra orkujurta
Höfundur

Sandra Rán Ásgrímsdóttir - Mannvit

Skrá

umhverfis-og-samfelagslegur-avinningur-islenskra-orkujurta.pdf

Sækja skrá