PDF · Útgáfa NMÍ 19-02 — desember 2019
Samsetn­ing og uppruni svifryks í Hval­fjarðar­göng­um

Miðað við þær greiningar sem gerðar voru í þessari rannsókn á uppruna ryks sem safnað var úr Hvalfjarðargöngum yfir tímabilið 17.01.17 til 13.06.18, má rekja uppruna ryksins að mestu til fylliefna í malbiki. Eðlilegt er að álíta að bikið eða bindiefni malbiksins slitni í réttu hlutfalli við hluta þess í malbiki á móti hluta fylliefna. Því má segja að
malbikið í göngunum sé langstærsti þáttur í uppruna fallryks í Hvalfjarðargöngum. Ryk sem myndast vegna útblásturs frá ökutækjum sem fara um göngin, sem og vegna slits bremsuborða og dekkjaslits, eru einnig þáttur í rykmynduninni í göngunum, samanber snefilefnagreiningar úr fyrri rannsókn.

Ef magn svifryks í göngunum er skoðað yfir heilt ár (2016 og 2017), kemur í ljós að verulegur munur er á svifryksmyndun yfir vetrartímann annars vegar og sumartímann hins vegar, þ.e. tímabilin með og án nagladekkja. Meðalsvifryksmagn fyrir allt árið 2017 er um 116 mg/m3, fyrir tímabilið frá áramótum til 1. maí (nagladekkjatímabil) er styrkurinn um 186 mg/m3 og fyrir tímabilið frá 1. nóv. til áramóta er styrkurinn um 128 mg/m3 (nagladekkjatímabil) og yfir sumarmánuðina frá 1. júní til 1. október er meðaltalið um 43 mg/m3 (tímabil án nagladekkja). Sambærilegar niðurstöður fengust fyrir árið 2016. Niðurstöður mælingar á sethraða eða fallhraða í göngunum eru einnig á þá leið að setmyndunin í göngunum er u.þ.b. 5 sinnum meiri að vetrarlagi en að sumarlagi.

Af þessum niðurstöðum er ljóst að notkun nagladekkja hefur veruleg áhrif á svifryksmyndun í göngunum.

Samsetning og uppruni svifryks í Hvalfjarðargöngum
Höfundur

Gísli Guðmundsso - NSMÍ

Skrá

samsetning-og-uppruni-svifryks-i-hvalfjardargongum-minna.pdf

Sækja skrá