Jarðvísindastofnun Háskólans hefur gert tilraunir með notkun íssjár við eftirlit með vatnssöfnun undir sigkötlum í Mýrdalsjökli frá árinu 2012. Í ljósi mikilvægis vegarins yfir Mýrdalssand og öryggis vegfarenda þar er leitast við að sjá fyrirfram mögulega vatnssöfnunarstaði sem gætu orsakað snögg hlaup. Er þannig reynt að styrkja það eftirlit sem nú á sér stað með mælingum úr flugvél. Hér verður gerð grein fyrir ástandi sigkatla á Mýrdalsjökli og þeim breytingum sem orðið hafa undir þeim frá því í maí 2012. Í febrúar 2014 gáfu íssjármælingar til kynna að undir engum katli væri nægjanlegt vatn til að valda umtalsverðu hlaupi. Aðstæður gætu þó breyst hratt ef snöggar breytingar verða í kötlunum. Smávegis af vatni gæti verið undir katli K-16 (meginupptök hlaups í júlí 2011), dálítið einnig undir K-11 en nokkru meira undir K-10 (~2 Gl). Í tímabilinu frá því í maí 2012 til maí 2013 benda íssjármælingar til að nokkur vatnssöfnun hafi bæði verið í K-6 og K-16 en síðan hafi runnið úr þeim sumarið 2013. Ketill K-17, sem er lítill en krappur og stendur neðan til í norðurhlíð Háubungu, skammt frá K-9, hefur dýpkað umtalsvert á síðustu mánuðum. Verður að telja sennilegt að jarðhitavatn sem rann fram í Múlakvísl mestallan janúar hafi komið úr þessum katli.
Eyjólfur Magnússon, Magnús Tumi Guðmundsson, Finnur Pálsson og Þórdís Högnadóttir - Jarðvísindastofnun HÍ