Jarðlagaskipun við norðanverðan Breiðafjörð hefur verið rannsökuð í því skyni að kanna tengsl á milli upphleðslu hraunlaga, höggunar og setlagadælda. Rannsóknasvæðið er um 30 km langt og liggur nokkuð samsíða strikstefnu jarðlagastaflans. Þar eru meðal jarðlaga hin þekktu setlög með steingervingum sem kennd eru við Brjánslæk og talin um 12 Ma gömul. Berggrunnskort í mælikvarðanum 1:50.000 hefur verið dregið upp af svæðinu og byggt á gögnum sem safnast hafa saman við kennslu í jarðfræðikortlagningu við Háskóla Íslands síðastiðin 30 ár. Þau gögn hafa nú verið hnitsett og sett í landfræðilegan gagnagrunn ásamt þeim gögnum sem aflað var við athuganir á svæðinu og tengingu þeirra eldri í eina heild.
Jarðlagastaflinn á svæðinu er að mestu úr basalthraunlögum, jarðlagahallinn er til SSA og samanlögð þykkt staflans á bilinu 2 til 2,5 km. Staðbundin frávik í striki og halla koma fyrir og virðast tengjast linsulaga upphleðslu gosefna. Ekki verður séð að nein meiriháttar mislægi fylgi setlagasyrpum í jarðlagastaflanum og syrpurnar virðast fléttast saman við hraunlögin. Berggangar eru margir á svæðinu, hafa ákveðna meginstefnu en mynda ekki
þær þyrpingar að tengja mætti megineldstöðvum, enda hefur súrt berg hvergi fundist þar. Myndunarumhverfi jarðlaganna gæti hafa svipað til Reykjanesskaga nútímans, þar sem skástíg röð aflangra eldstöðvakerfa situr á hlykk eða sveigju á rekásnum. Höggun sem fylgir gliðnun og eldvirkni í eldstöðvakerfunum gengur inn í nokkru eldri jarðlög í útjaðri gosbeltisins og leiðir þar til myndunar misstórra sigdælda sem í safnast set, gosmyndanir og hraunlög.
Andrés I. Guðmundsson - HÍ