PDF · janúar 2005
Tengsl aldurs bifreiða og umferðaró­happa

Hér getur að líta skýrslu Umferðarstofu um rannsókn sem var gerð á tengslum aldurs bifreiða og umferðaróhappa byggt á gögnum frá árunum 1998-2003 úr slysaskrá og ökutækjaskrá, en verkefnið var styrkt af Rannsóknarráði umferðaröryggismála (Rannum). Í rannsókninni var kannað eftirfarandi:

1. Hvort tíðni óhappa þar sem meiðsli hljótast af sé háð aldri eða framleiðsluári bifreiðarinnar.
2. Hvort framleiðsluár eða aldur ökutækis hafi áhrif á líkur þess að meiðsl hljótist af ef
ökutæki lendir á annað borð í óhappi.

Niðurstöður úr hluta 1 voru á þá leið að á bifreiðum, sem framleiddar eru á árunum 1992-2003, fer slysum, miðað við ekna kílómetra, jafnt og þétt fjölgandi eftir því sem bifreiðin er eldri. Sem dæmi um það þá verða hátt í þrefalt fleiri slys með meiðslum á fólki á hvern ekinn kílómetra á bifreiðum sem framleiddar eru á árunum 1992-1994 heldur en á bifreiðum sem framleiddar eru á árunum 2001-2003. Þegar skoðaðar eru bifreiðar sem framleiddar eru fyrir þennan tíma þ.e. árin 1980-1991 þá snýst þetta við og tíðni slysa fer lítillega lækkandi eftir því sem bifreiðin eldist.

Niðurstöður úr hluta 2 voru þær að fyrir ökutæki framleidd á árunum 1983-2003 þá fer hlutfall meiðsla í slysi jafnt og þétt hækkandi eftir því sem bifreiðin verður eldri. Sem dæmi um þetta þá eru 8,6% líkur á að einhver meiðsli hljótist af óhappi hjá bifreið sem framleidd er á árunum 2001-2003 á meðan líkurnar á að einhver meiðsli hljótist af óhappi hjá bifreið sem framleidd er á árunum 1992-1994 eru 12,4% og 15,1% hjá bifreið sem framleidd er á árunum 1983-1985.

Tengsl aldurs bifreiða og umferðaróhappa
Höfundur

Kristján V. Rúriksson, Sævar J. Solheim

Ábyrgðarmaður

Umferðarstofa

Skrá

tengsl-aldurs-bifreida-og-umferdarohappa.pdf

Sækja skrá