PDF · janúar 2005
Tegund drif­búnaðar og slysa­tíðni

Upphafleg hugmynd verkefnisins var að skoða hvort samband sé á milli drifbúnaðar ökutækja og slysatíðni, þ.e. tengjast slys drifbúnaði og er munur á aksturseiginleikum eftir honum. Á seinni stigum var tekin sú ákvörðun að tengja saman drifbúnaðinn og yfirbyggingu og voru ökutækjaflokkarnir myndaðir af þessu tvennu. Yfirbyggingunni var skipt í fólksbíla, jepplinga og jeppa og drifbúnaðinum í afturhjóladrif, framhjóladrif, fjórhjóladrif með sídrifi og fjórhjóladrif án sídrifs. Ákveðin tegund óhappa úr slysaskrá Umferðarstofu var skoðuð og tengd viðkomandi ökutæki. Slysatíðni á árunum 1998-2003 var tengd óhöppum þar sem eitt ökutæki á í hlut, þ.e. útafakstur af vegi og veltur. Unnið var með 3.039 óhöpp úr slysagrunni Umferðarstofu. Óhöppin voru greind eftir aðstæðum á slysstað, t.d. snjó og hálku, dreifbýli og þéttbýli, bundið slitlag og malarvegur o.s.frv. Ekki var tekið tillit til ökumanna heldur einungis einblínt á ökutækin, kílómetrastöðu svo og tegund óhapps. Mögulegar ástæður óhappanna voru settar fram með stuðningi gagna og línurita. Rannsókninni var skipt upp í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi var reiknuð út skipting slysa hvers ökutækjaflokks fyrir sig. Í öðru lagi skipting slysa miðað við fjölda ekinna kílómetra og í þriðja lagi fjöldi slysa með tilliti til heildarfjölda hvers ökutækjaflokks. Mikill hluti verkefnavinnunnar fólst í gagnaöflun. Ökutækjaskráin var notuð svo og slysaskrá Umferðarstofu auk þess sem aðstoð var fengin hjá bifreiðaumboðunum.

Niðurstöðurnar gáfu til kynna að jeppar lenda oftar í þessari tegund óhappa miðað við jepplinga og fólksbíla. Þó er ekki hægt að draga þá ályktun að t.d. jeppar séu betri eða verri en fólksbílar eða jepplingar þar sem notkun þessara ökutækjaflokka er ólík. Auk þess er lítill hluti allra slysa skoðaður og ber að taka tillit til þess. Þetta verkefni gefur möguleika á áframhaldandi rannsóknum á slysum. Mikið hefur safnast af upplýsingum um drifbúnað og flokkun ökutækja og ætti því að vera auðveldara að skoða ýmsa hluti betur.

Tegund drifbúnaðar og slysatíðni
Höfundur

Einar Einarsson, Elísabet Árnadóttir

Ábyrgðarmaður

Umferðarstofar

Skrá

tegund_drifbunadar_og_slysatidni_lokaskyrsla_skil.pdf

Sækja skrá