Skýrslan lýsir framkvæmd og niðurstöðum annars áfanga rannsóknar á slysatíðni breyttra jeppa sem fjármögnuð er af Rannsóknarráði umferðaröryggismála. Meginmarkmið verkefnisins er að kanna mun á slysatíðni í mjög stóru safni jeppa og einnig að kanna hvort munur er á meiðslum í slysum sem annars vegar breyttir og hins vegar óbreyttir jeppar hafa lent. Í úrtakinu eru 15170 jeppar af 22 tegundum sem nýskráðir voru á árabilinu 1991-2001 og er þetta úrtak rúmlega fjórum sinnum stærra en unnið var með í fyrsta hluta verkefnisins. Reiknuð var árleg slysatíðni jeppa í úrtakinu fyrir árin 1992-2001 og þeir flokkaðir eftir dekkjastærð. Ekki mælist marktækur munur á árlegri slysatíðni milli flokka jeppa af mismunandi dekkjastærðum ólíkt niðurstöðum fyrsta áfanga, en þar mældist slysatíðni breyttra jeppa lægri en óbreyttra þegar skoðaðir voru 3385 jeppar af þremur algengum tegundum og slysatíðni var ekki reiknuð árlega heldur fyrir allt tímabilið vegna lítils fjölda slysa í úrtakinu. Munur á meiðslum ökumanna breyttra og óbreyttra jeppa, og ökumanna og farþega fólksbifreiða sem lentu í árekstri við annars vegar breytta og hins vegar óbreytta jeppa á árunum 1991-2001 mælist ekki marktækur. Tíðni alvarlegra meiðsla er þó lægri breyttum jeppum í hag, hvort sem litið er á ökumenn jeppa eða ökumenn og farþega fólksbíla sem lentu í árekstri við jeppa, þó munurinn sé ekki tölfræðilega marktækur. Tekið skal fram að tiltölulega stutt er síðan breyttir jeppar komu í umferð,
hlutfall þeirra er lágt og slysin sem um ræðir eru því fá. Ekki er því útilokað að í framtíðinni muni sterkari tölfræðigögn leiða í ljós marktækan mun. Rannsóknin sýnir að breyttir jeppar lenda ekki í fleiri slysum en óbreyttir, og að meiðsli í slysum breyttra jeppa eru ekki
alvarlegri en slys óbreyttra. Munurinn á meiðslum ökumanna liggur
aðallega í því hvort þeir eru í fólksbifreið eða jeppa en ekki hvort
jeppinn er breyttur eða ekki.
Árni Jónsson, Skúli Þórðarson, Guðmundur Freyr Úlfarsson
Orion Ráðgjöf ehf