Þátttaka í könnuninni var ágæt. Svar barst frá tæplega 70% starfandi grunnskóla eða frá 134 skólum af 192 alls. Ljóst er af þeim niðurstöðum sem fengust að skólafólk vill gera skyndihjálp góð skil í skólakerfinu. Tæplega 90% skóla telja áhuga vera fyrir
hendi í sínum skóla til þess að gera skyndihjálpinni góð skil. Þeir örfáu sem ekki töldu aðstæður eða áhuga vera fyrir hendi tilgreindu að annir og álag vegna annarra greina vera ástæðuna. Athyglisvert er að skipulögð skyndihjálparfræðsla fer aðeins fram í 72 skólum sem tóku þátt í könnuninni eða 55% tilvika. Þar af er skyndihjálpin aðeins skilgreind sem verkefni í skólanámskrá í 30% tilvika. Skyndihjálp er helst kennd í lok grunnskólans þ.e. í 10. bekk. Ekki eru bein tengsl á milli þrepa- og áfangamarkmiða í Aðalnámskrá fyrir grunnskóla og kennslu í skyndihjálp ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Þá telja aðeins 40% þátttakenda í könnuninni að skólinn þeirra kenni skyndihjálp í samræmi við aðalnámskrá fyrir grunnskóla. Þátttakendur í könnuninni áttu í mestum vandræðum með að svara spurningum tengt notkun á námsefni í skyndihjálp og slepptu hlutfallslega flestir að svara þeim spurningum. Ástæður þess voru einkum þær að svarendur þekktu ekki til námsefnisins
og höfðu litla reynslu af því. Það er mat skólamanna að góð grunnþekking sé mikilvæg fyrir þá sem taka að sér að kenna skyndihjálp og sú reynsla verði enn mikilvægari eftir því sem ofar dregur í skólakerfinu. Niðurstaðan var þó sú að námsbækurnar hefðu almennt reynst ágætlega en endurnýja þyrfti myndbönd. Mjög fáir skólar (13%) hafa sent kennara á leiðbeinendanámskeið RKÍ í skyndihjálp og fjölmargir höfðu ekki hugmynd um að þau námskeið væru í boði yfirleitt. Þá hafa 40 skólar eða um 31% þátttakenda haldið skyndihjálparnámskeið fyrir starfsfólk sitt s.l. tvö ár. Heldur færri höfðu haldið námskeið í sálrænni skyndihjálp eða 25%. Áhugi er þó fyrir hendi í að halda slík námskeið en um 90% þátttakenda hafa áhuga á að halda slíkt námskeið fyrir starfsfólk sitt og telja slíka fræðslu mikilvæga. Nauðsynlegt er að endurskoða kynningarleiðir á námsefni og hvernig upplýsingum um skyndihjálp er komið til kennara. Að mati þátttakenda eru heimsóknir í skóla
áhrifaríkastar. Þá þarf skyndihjálp að vera hluti af kennaramenntun en undirbúningur kennaranema er á skornum skammti hvað varðar þennan þátt.
Staða skyndihjálpar hefur ekki styrkst eftir tilkomu nýrrar Aðalnámskrár fyrir grunnskóla árið 1999 en þá var hún felld undir námsgreinina lífsleikni. Þrátt fyrir þá skoðun þátttakenda að staða skyndihjálpar hafi versnað (31%) eða í besta falli staðið í
stað (41%) eftir þessar breytingar þá telja fleiri en færri að rétt sé að halda skyndihjálpinni undir lífsleikni en ekki hafa hana sem sér valgrein. Mjög skiptar skoðanir eru þó um þetta atriði. Fjöldi ábendinga kemur fram í könnuninni hvernig mögulegt sé að efla þátt skyndihjálpar í skólakerfinu og fræðslu til almennings almennt. Sú afstaða kemur skýrt fram að mikilvægt sé að grunnskólarnir, heilsugæslan og Rauði kross Íslands svo og aðrir sem áhuga hafa taki upp aukið samstarf. Á þann hátt sé líklegast að ná árangri. Ein megin niðurstaða þessarar könnunar er þó sú að áhugi er fyrir skyndihjálp í skólakerfinu og skilningur fyrir mikilvægi þess að allir geti veitt fyrstu hjálp þegar á reynir. Fræðsla til almennings er ekki verk eins aðila eða stofnunar heldur samstarf fjölda aðila. Samstarf um eitthvað sem skiptir alla máli. Samstarf um að kenna skyndihjálp.
Sigurður Arnar Sigurðsson