Á hverju ári deyja margir Íslendingar í umferðarslysum, hverju sem það er um að kenna. Helst vildum við að enginn myndi fara þessa sorglegu leið, en í raunveruleikanum er það ekki svo. Viðbragðsaðilar eru fjölmargir og hæfir sem bregðast við þegar skaðinn er skeður, en helst þyrfti að fyrirbyggja slíkan skaða áður en hann verður. Verkefni þessu er ætlað að varpa frekara ljósi á umferðaröryggi á Íslandi með nokkuð öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Skýrsluhöfundar telja mikla þörf vera á því að skoða slík öryggismál út frá öðrum sjónarhornum, sérstaklega vegna alvarleika þeirra umferðarslysa sem hér hafa orðið. Banaslysum virðist ekki vera að fjölga þó svo að bifreiðafloti landsmanna hafi aukist og líklega keyri hver einstaklingur meira í dag en gert var fyrir fimmtán árum. Hugsanleg ástæða fyrir því er að vegir hafa batnað til muna og bifreiðar orðnar öruggari. Verkefni þetta hlaut styrk frá RANNUM (Rannsóknarráði umferðaröryggismála) og er ráðinu ætlað að stuðla að hvers konar rannsóknum, sem nýta má til að koma í veg fyrir umferðarslys og draga úr afleiðingum þeirra. Skýrsluhöfundar bera ráðinu bestu þakkir með von um áframhaldandi gott samstarf. Jafnframt vona höfundar að sú vinna sem hér á eftir fer, komi til með að nýtast jafnt ráðinu sem og öðrum áhugamönnum um slysalausa umferð á komandi árum. Ef verkefnið getur á einhvern hátt opnað einhverjar áður óþekktar gáttir og jafnvel auðveldað öðrum við slíkar greiningar, þá væri það eitt og sér ásættanlegt takmark með þessari vinnu.
Inpro ehf