Markmiðið og tilgangur verkefnisins var að afla upplýsinga um hversu langt bifreiðir fara frá vegi þegar útafakstur verður og afmarka tiltekið svæði sem telst hættusvæði í kringum veginn. Upplýsingarnar nýtast vonandi Vegagerðinni til að bæta þann þátt sem snýr að umhverfi (hliðarsvæði) veganna. Flest banaslys í umferðinni og mörg alvarleg umferðarslys eru útafakstur á Íslandi og umhverfi veganna (fláar og frágangur þeirra, grjót, skurðir, vegræsi o.sfrv.) getur skipt miklu máli varðandi afleiðingar slysa og meiðsl á fólki. Margt bendir til þess að draga megi úr slysum á fólki ef hliðarsvæði veganna er lagað og gefa niðurstöður verkefnisins vísbendingar um hversu langt er eðlilegt að teygja sig í þeim efnum. Forsaga verkefnisins tengist umræðu um útafakstur og áherslu á að bæta umhverfi vega á Íslandi. Komið hefur fram í skýrslum að flest banaslys í umferðinni eru útafakstur. Orsakir slysanna hafa verið raktar og niðurstöður greindar eftir ýmsum þáttum, s.s. kyni, aldri, tíma árs o.fl., en útafakstursvegalengdin hefur ekki verið skoðuð sérstaklega áður. Höfundur gerir sér grein fyrir að lega vegstæðis og umhverfi vega á Íslandi mótast víða af náttúrunnar hendi. Það gildir t.d. um ýmsa fjallvegi og vegi sem liggja í hlíðum fjalla er
ná í sjó fram að þar er nær ómögulegt að bæta umhverfi vega. Á öðrum stöðum háttar þó þannig að hægt er að bæta umhverfi veganna og laga hliðarsvæði, og er skýrslan skrifuð með þá vegi í huga. Þessari skýrslu er einungis ætlað að svara spurningunni um útafakstursvegalengd bifreiða. Um orsakir útafaksturs hefur verið fjallað í öðrum skýrslum (sjá t.d. Útafakstur í dreifbýli 2001, Rannsóknarnefnd umferðarslysa; Skýrslur um banaslys í umferðinni 1998-2002) og ýmsar skýrslur verið unnar þar sem vegtæknileg atriði eru greind nánar (sjá t.d. skýrslur Línuhönnunar fyrir Vegagerðina).
Hrefna María Hagbarðsdóttir