Í flestum tilfellum þegar umferðaróhapp verður á þjóðveginum er kölluð til lögregla til þess að gera skýrslu um málið. Oft eru það aðvífandi vegfarendur sem kalla til lögreglu en einnig stundum þeir sem í óhappinu lenda. Á vettvangi óhappa gerir lögregla alla jafna frumdrög að skýrslu um atburðinn og ef slys hafa orðið á fólki er einnig teiknuð afstöðumynd af vettvangi. Þegar heim á lögreglustöð er komið er gerð fullnaðarskýrsla á tölvutæku formi sem vistuð er í skýrslugerðarforriti sem varðveitt er í Tölvumiðstöð Dómsmálaráðuneytisins í Reykjavík og einnig eru upplýsingar um málið færðar í málaskrá sem varðveitt er á sama stað. Skýrslurnar um óhöppin eru sendar Umferðarráði/Umferðarstofu og tryggingafélögunum. Umferðarstofa hefur með höndum skráningu upplýsinga úr skýrslunum í gagnagrunn sem felur orðið í sér mikið magn upplýsinga um öll umferðaróhöpp í landinu mörg ár aftur í tímann. Þegar við lögðum það niður fyrir okkur að vilja rannsaka ástæður umferðaróhappa á
þjóðveginum, þótti liggja beint við að óska eftir upplýsingum úr þessum gagnagrunni og var óskað eftir upplýsingum fyrir svæðið frá Hvalfjarðargöngum að Ólafsfjarðarvegi í Eyjafirði vegna áranna 1997 til og með 2000. Umferðarráð brást afar vel við erindi okkar um gögn og sendi okkur gagnasafn sitt fyrir umrætt svæði á umræddu tímabili.
Hörður Ríkharðsson
Lögreglan á Blönduósi