PDF · desember 2003
Áhrifa­þætt­ir meiðsla í umferðar­slys­um: Munur á meiðsl­um ökumanna jeppa og fólks­bifreiða

Tilgangur rannsóknarinnar er að finna helstu þætti sem hafa áhrif á líkur á meiðslum ökumanna í umferðarslysum er varða eitt ökutæki og í árekstrum tveggja ökutækja, með sérstakri áherslu á mun á meiðslum ökumanna jeppa og fólksbifreiða. Til að ná þessum tilgangi er aðferðum úr hagrannsóknum beitt til að setja fram stærðfræðileg líkön er meta líkur þess að tiltekinn ökumaður í tilteknu slysi verði fyrir meiðslum og þá af hvaða tagi. Flokkar meiðsla eru: Engin meiðsl, lítil meiðsl, mikil meiðsl og dauði. Þessi flokkun ræðst af þeirri flokkun sem er notuð í slysaskrá Umferðarstofu.

Líkönin eru sett fram sem stærðfræðileg föll af þeim áhrifaþáttum sem slysaskráin hefur að geyma, t.a.m. birtuskilyrði, vegskilyrði, aldur, kyn og ölvun ökumanns, fjöldi farþega, aldur ökutækis, tegund umferðarslyss. Hver þessara þátta er metinn tölfræðilega til að kanna hvort þátturinn hefur marktæk áhrif á meiðsl í umferðarslysum eða ekki.

Líkön sem þessi gefa nákvæmari upplýsingar um hvað ræður meiðslum í umferðarslysum en einföld meðaltöl eða flokkanir áhrifaþátta í hópa eins og títt er í úrvinnslu ýmissa kannana. Slík meðaltöl leyfa ekki skýran samanburð á milli áhrifaþátta, t.d., til að sjá hvaða þáttur er áhrifamestur og hver er minnstur.

Upplýsingar um hvaða áhrifaþættir eru ráðandi og auka eða minnka líkur á meiðslum í umferðarslysum eru mikilvægar við ákvarðanatöku sem varðar umferðaröryggismál. Niðurstöður rannsóknarinnar benda á þá áhrifaþætti sem mest áhrif hafa. Slíkar upplýsingar geta einnig nýst við skipulagningu og endurbætur umferðarmannvirkja, og við umferðarfræðslu.

Þessi skýrsla lýsir fyrst stöðu þekkingar stuttlega og þá aðferðafræðinni sem beitt er. Næst er gefin lýsing á gögnunum og því næst eru niðurstöður ræddar. Í viðauka fylgja töflur með öllum útreiknuðum stuðlum líkananna.

Áhrifaþættir meiðsla
Höfundur

Guðmundur Freyr Úlfarsson

Skrá

ahrifathaettir-meidsla-i-umferdarslysum.pdf

Sækja skrá