PDF · Útgáfa 2970-201 — maí 2016
Kort­lagn­ing þarfar á salern­isað­stöðu við hring­veginn

Í rannsóknarverkefni þessu hefur aðgengi að salernisaðstöðu á þjóðvegi 1 á Íslandi verið kannað með árdagsumferð og fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum við hringveginn til hliðsjónar. Flest þeirra salerna sem er að finna á hringveginum eru á einkareknum stöðum, eins og
bensínstöðvum og matsölustöðum. Í rannsóknarverkefninu var einnig kannað hvernig rekstri vegasalerna í nágrannalöndum Íslands er háttað.
Vinnan við þetta verkefni leiddi í ljós að á hringveginum eru nokkrir vegkaflar sem eru yfir 90 km langir og án aðgengis að salerni á kvöldin og nóttunni. Verst er ástandið á vegköflum frá Egilsstöðum að Jökulsárlóni (260 km) annars vegar, og hins vegar frá Fellsá að Skógum (170 km), en á þeim síðarnefnda eru margir vinsælir ferðamannastaðir og fjöldi ferðamanna mikill á þeim stöðum. Mikill skortur er einnig á salernisaðstöðu á
mörgum ferðamannastöðum. Niðurstaða grunnmats á hringveginum varðandi tillögu að fjölgun vegasalerna var sú, að mælt er með að setja upp 9-13 salernishús með 4-6 salernum í hverju húsi. Heildarkostnaður við uppsetningu slíkra húsa nemur um 600-1000 Mkr. ef notast yrði við nýja áningarstaði í öllum tilfellum, en u.þ.b. 500-800 Mkr. ef notast væri við núverandi áningarstaði í helmingi tilfella og 300-600 Mkr ef salernishús yrðu
sett upp á núverandi áningarstöðum í öllum tilfellum. Þó er ljóst að einnig þarf að bæta við vegasalernum á öðrum þjóðvegum landsins og því yrði heildarkostnaður við að bæta salernisaðstöðum á öllum helstu þjóðvegum landsins töluvert hærri.

Kortlagning þarfar á salernisaðstöðu við hringveginn
Höfundur

Ragnhildur Gunnarsdóttir, Reynir Sævarsson, Lára Kristín Þorvaldsdóttir, Sigurður Thorlacius og Snævarr Örn Georgsson - Efla

Skrá

kortlagning-tharfar-a-salernisadstodu-vid-hringveginn.pdf

Sækja skrá