PDF · Útgáfa H-09-2019 — desember 2019
Breyt­ingar á farveg­um Leirár á Mýrdalss­andi, setflutn­ingar og mögu­legar orsak­ir

Leirá kemur úr Sandfellsjöklum í austanverðum Mýrdalsjökli. Sunnar er Kötlujökull, en um hann fellur stór hluti þess íss sem safnast fyrir innan Kötluöskjunnar. Leirárnar eru tvær, syðri og nyrðri. Þær breyttust lítið í áratugi á 20. öld en á tímabilinu 1995-2000 komu í Leirá syðri árleg hlaup. Samhliða urðu miklar breytingar á því svæði þar sem áin fellur fram á ofanverðan Mýrdalssand. Þar byggðist upp aurkeila sem teygir sig um 3,5 km í austur frá Sandfelli. Breidd hennar, miðað við það svæði þar sem umtalsverð setsöfnun hefur orðið er allt að 1,5 km. Aurkeilan er þykkust um 8 m næst Sandfelli en hún þynnist þaðan til allra átta. Þessar breytingar urðu til þess að Leirá syðri breytti um farveg. Hún sló sér til suðurs við Sandfell og fellur nú fram sandinn vestan Rjúpnafells til Skálmar. Rannsókn á setmyndun og því hvaðan þetta set geti verið komið, bendir til þess að á nokkru árabili kringum 1995-2000 hafi leysingar- og jarðhitavatn úr austurhluta Kötluöskjunnar a.m.k. að hluta komið undan jökli efst í Krika og fallið til Leirár syðri. Líklegt er að á þessu tímabili hafi áin verið töluvert vatnsmeiri en hún var löngum áður og hefur verið síðustu árin. Aurburður hafi jafnframt verið miklu meiri. Fyrir vikið hafi mikið af efni flust niður Leirá syðri og sest til þar sem hún fer að breiða úr sér fyrir austan Sandfell. Hækkun aurkeilunnar þar hafi að lokum orðið til þess að áin færðist í hinn nýja farveg. Eftir 2013 tók áin að grafa sig niður í aurkeiluna. Nú fellur hún gegnum aurkeiluna eftir breiðum, nokkurra metra djúpum farvegi. Ekki eru horfur á að áin færi sig aftur í sinn gamla farveg norðan Rjúpnafells nema á ný verði miklar breytingar á setflutningum þannig að áin fari að byggja undir sig á ný.

Breytingar á farvegum Leirár á Mýrdalssandi, setflutningar og mögulegar orsakir
Höfundur

Magnús Tumi Guðmundsson, Þórdís Högnadóttir, Guðrún Larsen og Ríkey Júlíusdóttir - Jarðvísindastofnun, Stefán Ármann Þórðarson - Jarðvísindadeild, Esther Hlíðar Jensen - Veðurstofu Íslands

Skrá

breytingar-a-farvegum-leirar-a-myrdalssandi.pdf

Sækja skrá