PDF · apríl 2020
Áhrif vega á þétt­leika fugla

Með stuðningi Rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar voru áhrif vega á fuglalíf könnuð árin 2018 og 2019. Áhersla var lögð á að skoða breytileika í þéttleika fugla út frá vegum en þekkt er erlendis að nánd við vegi hefur áhrif á þéttleika sumra fugla. Þetta hefur ekki verið kannað hérlendis áður en íslenski úthaginn er varpsvæði nokkurra stofna fugla sem verpa óvíða í heiminum í jafn miklum mæli. Gengin voru 122 snið út frá vegum á svæðinu frá Kirkjubæjarklaustri að Snæfellsnesi. Hvert snið var 400 m og reynt var að ganga í gegnum einsleit búsvæði. Hverju sniði var skipt í 50 m bil á lengdina og var fjöldi fugla í hverju bili talinn. Áhrif vega, umferðarþunga og búsvæða á þéttleika fugla voru reiknuð með almennum líkönum (e. generalized linear mixed models). Átta tegundir fugla komu fyrir í nægum þéttleika til að meta áhrif, sex vaðfuglategundir (lóuþræll, jaðrakan, heiðlóa, spói, stelkur og hrossagaukur) og tvær spörfuglategundir (þúfutittlingur og skógarþröstur). Heildarþéttleiki þessara átta tegunda jókst marktækt með aukinni fjarlægð frá vegum eða að meðaltali um 11 fugla/km2 við hverja 50 m er farið var frá vegi. Er áhrif á einstakar tegundir voru greind sérstaklega sást að lóuþræl, heiðlóu, þúfutittlingi og spóa fjölgaði marktækt er fjær dró frá vegum en aðrar tegundir sýndu ekki marktæka breytingu á þéttleika með fjarlægð frá vegi. Næst var vegum skipt eftir umferðarþunga á vegum sem voru með sumardagsumferð (SDU) ≤ 250 og > 250 SDU. Við vegi með ≤ 250 SDU sýndu engar tegundir reytingu á þéttleika við vegi. Við vegi með meiri umferð en 250 SDU, fækkaði lóuþræl, jaðrakan, heiðlóu, stelk, spóa og þúfutittlingi marktækt. Lækkun á þéttleika fugla með vegum virðast vera mest á 200 m næst vegi en minni eftir það. Miðað við þau gögn sem hér var aflað má gera ráð fyrir að tap á þeim tegundum sem hér voru til skoðunar sé um 20 fuglar á hvern 1 km af vegi á næstu 200 m við veginn. Ef áhrif veglagningar á fuglaþéttleika við vegi eru borin saman við áhrifin af því að flatarmál tapast undir veginn sjálfan má sjá að jaðaráhrifin eru líklega mun meiri en þau áhrif sem verða af beinu tapi á búsvæðum undir veginn. Samandregið þá virðast vegir hafa talsverð áhrif á þéttleika algengra mófugla í grennd við veginn. Áhrifin eru mest næst veginum og einkum við umferðarþyngri vegi. Þannig má segja að fáfarnari sveitavegir hafa hverfandi áhrif á útbreiðslu fugla en umferðarþyngri vegir hafa talsverð áhrif sem taka ætti tillit til við mat á áhrifum vegagerðar á fugla.

Áhrif vega á þéttleika fugla
Höfundur

Böðvar Þórisson, Aldís E. Pálsdóttir og Tómas G. Gunnarsson - HÍ

Skrá

1800-659-ahrif-vega-a-thettleika-fugla.pdf

Sækja skrá