PDF · nóvember 2017
Viðhorf og ferða­venjur erlendra ökumanna bíla­leigu­bíla á Íslandi sumar­ið 2017

Könnunin sem sagt er frá í þessari skýrslu, var gerð hjá erlendum ferðamönnum sem tóku bíl á leigu hjá bíleleigunni Geysi á tímabilinu júní til loka ágúst 2017. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að algengast er að leigutakar séu karlmenn og eru þeir flestir á aldrinum 30-49 ára. Lang flestir svarendur eru frá Evrópu, en afar fá svör eru frá Asíu. Spurningalistinn var á ensku og er það m.a. talið skýra þessa litlu þátttöku þaðan, en einnig kemur fram að tæpur fimmtungur gefur ekki upp þjóðerni sitt og er talið líklegt að þar séu innifaldir stór hluti frá Asíulöndunum.

Flestir taka á leigu minnstu gerð fólksbíla (43%), en tæplega 30% leigja jepplinga. Meðalleigutíminn eru tæpir 9 dagar. Lang flestir aka yfir 1000 km. Flestir (86%) segjast hafa ekið á malarvegum og 31% á hálendisvegum. Einnig kemur fram að 6% segjast hafa ekið utan vega.

Um 90% svarenda töldu sig hafa fengið nægar upplýsingar um akstur á íslenskum vegum áður en lagt var af stað. Það sem oftast var nefnt um þörf á frekari upplýsingum var ástand vega, akstur á einstökum svæðum og utanvegakstur. Upplýsinga var leitað há Vegagerðinni og Veðurstofunni af 30% svarenda. Flestir, yfir 90%, töldu sig örugga eða nokkuð örugga í akstrinum um Ísland og almennt gekk svarendum vel að rata til ákvörðunarstaðar eftir vegmerkingum, enda áttu um 77% svarenda ekki í erfiðleikum með að skilja vegmerkingar og umferðaskilti. Varðandi erfiðleika við einstök atriði varðandi aksturinn kemur fram að flestir telja of fáa staði til að stoppa þar sem hægt væri að taka myndir.

Þegar spurt var um umferðaróhöpp, kom fram að 4% lendu í slíku og þeir voru flestir frá Asíu (ath. þetta er þrátt fyrir að fremur lágt hlutfall var af svörum frá Asíu, eins og áður er komið
fram).

Ýmsar ábendingar koma fram varðandi hvað má bæta hér og fæst af því kemur á óvart. Fleiri vegir með bundnu slitlagi eru oftast nefndir en einnig kemur fram að algengt er að bent sé á að
bæta þurfi salernisaðstöðu.

Varðandi hálendisvegi telur meira en helmingur svarenda að ekki ætti að leggja á þá bundið slitlag, né að þar verði brúm fjölgað.

Viðhorf og ferðavenjur erlendra ökumanna
Höfundur

Bjarni Reynarsson, Landráð sf

Skrá

ferdavenjukonnun-2017.pdf

Sækja skrá