PDF · Útgáfa S-23 — janúar 2002
Úttekt á stöðu nagla­dekkja­mála – nýjar nagla­gerð­ir, önnur þróun

Markmið verkefnisins var að skoða stöðu nagladekkjamála á Íslandi og bera hana saman við stöðu í nálægum löndum. Þá var einnig gert ráð fyrir að draga saman upplýsingar um nýjungar og þróun í gerð nagla og dekkja sem sérstaklega eru gerð fyrir vetrarakstur. Til að ná markmiðinu voru heimildir skoðaðar og upplýsingar teknar saman.

Frá árinu 1996 hafa verið í gildi samræmdar reglur um nagladekk í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Íslensk reglugerð frá 1995 fjallar um sömu hluti og leyfir þyngri nagla en í áðurnefndum löndum (1,4 g á fólksbíla í stað 1,1 g og 5,2 g á þungum bílum í stað 3,0 g).

Þróun í gerð nagla hefur að mestu verið í þá átt að gera þá léttari. Ónegld vetrardekk, sérstaklega ætluð til aksturs í snjó og hálku, hafa einnig verið þróuð. Nefna má svokölluð loftbóludekk, harðkornadekk og fleiri gerðir. Samanburður á eiginleikum þessara dekkja og nagladekkja við vetraraðstæður, er ekki einhlítur og ekki hægt að segja að einhver ein dekkjagerð henti best við allar aðstæður.

Á Norðurlöndunum hefur talsvert verið gert af könnunum á öryggisáhrifum nagladekkja. Flestar þeirra benda til að nagladekk hafi áhrif til góðs, þó athyglisvert sé að sjá að það sé nánast óháð færðinni. Hérlendis eru öryggisáhrif nagladekkja merkanlegri utan höfuðborgarsvæðisins, en innan þess. Umhverfisáhrif nagladekkja hafa einnig verið
skoðuð og sérstaklega svokallað svifryk sem þau valda. Ekki er samræmi í upplýsingum um magn svifryks hér og í Noregi, en stefnt er að því að geta metið samsetningu svifryks í Reykjavík með efnagreiningu.

Í seinni tíð er það aðeins í Noregi, sem rætt hefur verið um bann eða takmörkun við notkun nagladekkja og þá aðeins í stærri bæjum, einkum vegna rykmengunar sem þau valda. Stefnt er að því að á árinu 2002 verði nagladekkjanotkun komin niður í 20% á vetri í stærri bæjum í Noregi.

Notkun negldra hjólbarða í Reykjavík virðist hafa staðið í stað undanfarin ár. Síðastliðin ár samsvarar notkunin því að fjóðrungur ársumferðarinnar sé á negldum hjólbörðum. Samkvæmt mælingum hefur slit á malbiki í Reykjavík aðeins minnkað frá 1990, en ekki verður sérstaklega vart við breytingar á sliti við breytingu á reglugerð árið 1995.

Verkefnishópurinn telur ástæðu til að samræma íslenska reglugerð við norskar, sænskar og finnskar, hvað varðar þyngd nagla. Verkefnishópurinn telur einnig rétt að kanna möguleika á að gerðar verði einhverjar þær ráðstafanir sem dugi til að draga verulega úr slitáhrifum nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars í því skyni að draga úr mengun vegna svifryks. Kanna þarf hvaða möguleikar eru fyrir hendi í því sambandi, en tekið er fram að rétt er að hafa í huga mismunandi aðstæður innan höfuðborgarsvæðisins og utan þess.

Verkefnishópurinn telur, að betra sé að umræðan um neglda hjólbarða snúist fremur um að þeir geti við vissar aðstæður verið ökumanni til aðstoðar við aksturinn, en ekki að öruggara sé að aka á negldum hjólbörðum almennt að vetri til, eins og má ef til vill skilja á umræðunni í dag. Þegar allt kemur til alls er það í langflestum tilvikum ökumaðurinn sjálfur og rangt mat hans á aðstæðum sem veldur umferðaróhöppum.

Úttekt á stöðu nagladekkjamála - nýjar naglagerðir, önnur þróun
Höfundur

Þórir Ingason, Ásbjörn Jóhannesson - BUSL

Skrá

uttektstodnagl.pdf

Sækja skrá