PDF · apríl 2008
Útafa­kstur og veltur bifreiða – djúp­grein­ing

Útafakstur bifreiða er mikið vandamál á Íslandi, ekki síst þar sem afleiðingarnar eru alvarleg slys á fólki í ökutækjunum. Útafakstur bifreiða hefur verið orsök um 43% allra banaslysa undanfarin ár og árin 2005 og 2006 voru 24% slysa með miklum meiðslum og 21% slysa með litlum meiðslum af völdum útafaksturs bifreiða.

Í þessari rannsókn var meðal annars varpað fram þeirri spurningu hvort og þá hver væri eðlislægur munur i á útafakstursslysum eftir alvarleika áverka sem af hljótast.Talsverður munur reyndist á orsökum banaslysa og annarra slysa. Ölvun ökumanna, bílbeltaleysi, aflögun inn í farþegarými og mikill hraði voru einkennandi fyrir banaslysin. Ökumenn voru ölvaðir í tæplega 60% af þeim banaslysunum sem rannsökuð voru, 55% látinna voru ekki spenntir í öryggisbelti og í yfir 60% tilfella
var mikil aflögun inn í farþegarýmið.

Afleiðingar útafaksturs eru misalvarlegar. Í 73% skráðra útafakstursslysa var eingöngu um eignartjón að ræða (slysaskrá Umferðarstofu). Umhverfi vega og viðbrögð ökumanna skipta miklu máli hvort útafakstur verður alvarlegur eður ey. Vatn eða sjór í nánasta umhverfi vega er einkar hættulegt og drukknuðu 18% ökumanna í banaslysunum. Í 21% banaslysa og slysa með miklum meiðslum, voru stórir steinar, bakki, hóll eða skurður hluti af orsökum meiðslanna. Árekstur við grjót, skurð eða hól,
var algengasta orsök áverka í þeim alvarlegu útafakstursslysum sem tekin voru til skoðunar. Næst á eftir komu hátt fall og bílbeltaleysi. Bílbeltaleysi var aftur á móti algengasta orsök áverka í banaslysunum. Þar á eftir kom svo drukknun og mikil aflögun inn í farþegarýmið.

Rannsóknin leiðir í ljós fylgni á milli bílveltna og alvarleika slysa. Ökutæki ultu í 95% tilvika þegar banaslys urðu en í 90% tilvika alvarlegu slysanna og 67% tilvika þar sem meiðsli voru lítil. Ástæður mikillar aflögunnar inn í farþegarými og þess að aðilar kastast utan í ytra byrði farþegarýmisins, má oft rekja til bílveltunnar. Einnig kastast margir þeirra sem ekki eru í belti út úr bifreiðum sem velta.

Útafakstur og veltur bifreiða - djúpgreining
Höfundur

Ágúst Mogensen, Sævar Helgi Lárusson, RNU

Skrá

utafakstur-og-veltur-bifreida-djupgreining.pdf

Sækja skrá