PDF · febrúar 2002
Umferðar­tækni­leg inntaks­gildi í hermunar­forrit. Áfanga­skýrsla

Verkefnið ,,Umferðartæknileg inntaksgildi í hermunarforrit” er leit að svari við þeirri spurningu hvort sjálfgefin inntaksgildi í hermunarforrit, sem reikna út umferðarflæði á götum og vegum og eru hönnunarforsendur umferðarmannvirkja, eru viðeigandi hér á landi. Inntaksgildin, sem hingað til hafa verið notuð og fylgja hermunarforritunum, eru bandarísk og byggja á rannsóknum þar í landi á atferli ökumanna við aðstæður þar. Við notkun umferðarhermunarforrita hér á landi hafa vaknað efasemdir um að sömu aðstæður ríki hér á landi og að atferli ökumanna sé eins og í Bandaríkjunum. Geta breyttar inntaksstærðir haft áhrif á t.d. útreiknaða umferðarrýmd og tapaðan tíma á gatnamótum.

Þær stærðir, sem hér eru teknar til meðferðar í áfangaskýrslu, eru mettað forskot, tapaður tími, og tvísýnt ökubil. Fleiri stærðir er hægt að kanna og munu verða teknar til meðhöndlunar í framhaldsverkefni. Þessar stærðir eru m.a. akreinaval og bil fyrir samruna á margra akreina stofnbraut, sem ákvarðar gæði fléttunar milli gatnamóta. Einnig er ástæða til að styrkja niðurstöður mælinga, sem hér eru birtar, með áframhaldandi athugun svo og þróun mælitækninnnar við verkefnið.

Athuganirnar fólust í mælingum með tiltölulega einföldum mælibúnaði á ökubilum, forskoti og töpuðum tíma og úrvinnslu samkvæmt viðurkenndum fræðum. Nokkrir mælistaðir voru valdir til að kanna hæfi aðferðanna og verður að líta svo á að frekar hafi verið um að ræða forkönnun en heildarúttekt þó vísbendingar séu um að reikna megi með öðrum inntaksgildum í hermiforrit umferðarflæðis en þeim sjálfgefnu. Að mati skýrsluhöfunda er fyllsta ástæða til að gera frekari rannsóknir á áðurnefndum inntaksgildum og þá ekki síður að meta næmi hermunarforrits eins og t.d. CORSIM fyrir öðrum inntaksgildum. Verður nánar gerð grein fyrir framhaldsathugunum í lokaorðum skýrslu þessarar.

Umferðartæknileg inntaksgildi í hermunarforrit. Áfangaskýrsla
Höfundur

Samúel Torfi Pétursson, Haraldur Sigþórsson, Þorsteinn Þorsteinsson - Verkfræðistofnun HÍ, Línuhönnun

Skrá

6-07-2001.pdf

Sækja skrá