Skoðuð er umferðarsköpun íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu. Umferð var talin inn og út úr botngötum í íbúðahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Umferðarsköpun íbúðarhúsnæðis var áætluð út frá talningum og fjölda íbúða og íbúa í götunum sem voru til skoðunar. Niðurstöður verkefnisins er hægt að nýta við að áætla umferð fyrir íbúðarhúsnæði vegna nýs skipulags og breytinga á núverandi skipulagi.
Umferðasköpun er hugtak sem lýsir fjölda ferða í umferðinni bundið við ákveðið svæði eins og hverfi, götu eða byggingu. Upplýsingarnar nýtast við skipulagningu nýrra hverfa og
skipulagsbreytingar.
Til er umferðarspálíkan fyrir höfuðborgarsvæðið, sem notað er til að áætla bílaumferð. Í því er stuðst við líkingu sem metur ferðir eftir fjölda íbúa, stærð verslunar- og skrifstofuhúsnæðis auk annars atvinnuhúsnæðis (m2 ). Árið 2016 var gerð athugun, sem benti til að umferðarsköpun verslunarhúsnæðis væri töluvert vanáætluð í líkingunni en
skrifstofuhúsnæðis aftur á móti ofáætluð.
Til að kanna hvernig þessu væri háttað fyrir íbúðabyggð, var í þessu verkefni talin umferð úr 8 botngötum á höfðuborgarsvæðinu. Aðallega var um að ræða íbúðagötur í úthverfum, en
vandkvæði voru að gera marktækar mælingar í eldri hluta svæðisins.
Niðurstöður verkefnisins eru að meðalfjöldi ferða á íbúa fyrir allar tegundir íbúðarhúsnæðis er 1,36 ferðir á dag, en munur er eftir tegund húsnæðis. Fyrir fjölbýlishúsnæði er talan 1,14 ferðir á dag, en fyrir einbýlishúsnæði er hún 1,49 ferðir á dag. Þegar þetta er skoðað út frá stærð húsnæðis fást 3,2 ferðir á dag fyrir hverja 100 m2 í fjölbýlishúsahverfum en 2,7 ferðir fyrir hverja 100 m2 í einbýlishúsahverfum. Fram kemur einnig að aðgengi að almenningssamgöngum og almennri þjónustu í tilteknum götum hefur áhrif á fjölda bílferða, þannig að þeim fækkar eftir því sem aðgengið er betra.
Borið saman við áðurnefnt umferðalíkan höfuðborgarsvæðisins eru heldur færri ferðir farnar samkvæmt þessum athugunum en þar er gert ráð fyrir (líkanið miðar við 1,85 ferðir á íbúa á dag). Hins vegar er tekið fram að úrtakið í þessu verkefni er lítið og eingöngu eru skoðaðar botngötur í úthverfum og því varasamt að draga almenna ályktun af því. Frekari athuganir þarf til þess að það sé hæg
Arna Kristjánsdóttir, Soffía Hauksdóttir