Rannsóknarverkefnið Hálkuvarnir – Umferðaröryggi á vinstri akreinum í hálku fólst í greiningu á slysum sem urðu í hálku eða ísingu á þeim hluta Reykjanesbrautarinnar sem hefur verið tvöfaldaður, þ.e. frá um 2,8 km vestan tengingar að álverinu í Straumsvík að Fitjum í Njarðvík, sjá mynd 1. Síðasti hluti þess kafla sem tvöfaldaður hefur verið var opnaður fyrir umferð í október 2008 og endanlegum frágangi lauk árið eftir. Því nær athugunartímabil rannsóknarverkefnisins yfir sjö ár, frá 2009-2015. Í febrúar 2015 sótti Katrín Halldórsdóttir, verkfræðingur á umferðardeild Vegagerðarinnar, um styrk til rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar til að vinna verkefnið.
Þar sem miklu munar á umferð á vinstri og hægri akrein vega er vinstri akreinin erfiðari viðureignar varðandi hálkuvarnir. Umferð hefur jákvæð áhrif á virkni hálkuvarna og því getur þurft mun meiri hálkuvörn á vinstri akrein en á þá hægri til að vega upp á móti umferðarþættinum. Á Reykjanesbraut var um 7-8 sinnum meiri umferð á hægri akrein en á þeirri vinstri árið 2013, sjá viðauka I. Ekki eru gerðar neinar sérstakar ráðstafanir við hálkuvarnir á vinstri akreinum Reykjanesbrautar þrátt fyrir þennan mikla mun á þeirri umferð sem um akreinarnar fer. Í þessu verkefni eru hálku- og ísingarslys sem urðu á hluta Reykjanesbrautar á tímabilinu 2009-2015 rannsökuð með tilliti til á hvaða akrein þau urðu.
Verkefnið byggir á grunngögnum sem Vegagerðin hefur fengið frá Samgöngustofu en Samgöngustofa byggir sína slysaskráningu aðallega á lögregluskýrslum og gögnum frá
fyrirtækinu Aðstoð og öryggi.
Markmið verkefnisins er að rannsaka hvort marktækur munur sé á slysatíðni á vinstri og hægri akreinum í hálku. Niðurstöður rannsóknarinnar geta nýst við ákvarðanir varðandi hálkuvarnir og aðrar aðgerðir til að bæta umferðaröryggi í hálku.
Katrín Halldórsdóttir