Skýrsla þessi er bakgrunnsskjal sem varð til við vinnslu leiðbeininga fyrir gerð samgöngumats við skipulagsgerð. Verkefnið samanstóð af annars vegar skýrslu þessari sem útskýrir samgöngumat og
ferðavenjuáætlun eins og þau er gerð í Bretlandi og fer yfir bakgrunn þeirra og hins vegar leiðbeiningum um hvað samgöngumat og ferðavenjuáætlun eigi að innifela og útskýringar á helstu
þáttum þeirra. Verkefnið er framhald af skýrslunni „Samgönguskipulag og sjálfbærni“ sem fékk styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og var gefin út í apríl 2019. Samgöngur eru veigamikill þáttur í skipulagi og hafa áhrif á skipulagið og notendur þess um alla framtíð. Auk þess að hafa áhrif á umferðarmagn, umferðaröryggi og hljóðvist, hefur samgönguskipulag áhrif á lýðheilsu og lífsgæði og þar spila vistvænar og virkar samgöngur mikilvægt hlutverk. Vegna mikilvægis samgönguskipulags, sjálfbærra samgangna og áhrifa á samgöngukerfið og þéttbýlisumhverfið, þarf að auka vægi umfjöllunar um samgöngur í skipulagsgerð, sér í lagi vantar eftirfylgni með þessu í deiliskipulagsgerð. Í dag eru litlar kröfur í regluverki fyrir skipulagsgerð á Íslandi varðandi samgöngugreiningar. Sérstaklega hvað varðar sjálfbærar samgöngur í þéttbýli og í raun finnast engar beinar kröfur til deiliskipulagshöfunda um að tryggja að skipulagið hámarki möguleika notenda til að nota vistvænar og sjálfbærar samgöngur, almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngu. Samkvæmt ferðavenjukönnun SSH1 frá 2019 er hlutfall ferða á einkabíl í flestum sveitarfélögum landsins um 70-80%. Í könnun Maskínu2 um ferðir til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu kom í ljós að langflestir nýta sér einkabílinn og þá sem bílstjórar, en þegar spurt var um hvernig fólk myndi vilja ferðast í vinnuna þá er hlutfall þess ferðamáta mun minna, eða um 35-42%. Hér á landi er þörf á stefnumótun, leiðbeiningum og vitundarvakningu um samþættingu byggðar- og samgönguskipulags og góðrar borgarhönnunar auk þess sem þörf er á regluverki og leiðbeiningum um hönnun gatna. BREEAM Communities frá BRE í Bretlandi er matskerfi til að meta sjálfbærni skipulags. Í kerfinu er krafa um samgöngumat í upphafi skipulagsvinnu til að skipulagið byggi á sjálfbærum samgöngulausnum eins og kostur er. Hið mikilvæga samspil samgangna og skipulags hefur löngum verið viðurkennt í Englandi og markvisst hefur verið unnið að því síðan í byrjun 9. áratugarins að samþætta landnotkun og þróun samgöngumannvirkja og almenningssamgangna. Í dag eru samgöngur, og þá sérstaklega sjálfbærar samgöngur, lykilþáttur við gerð svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags í Englandi. Árin 2007 og 2009 gaf breska samgönguráðuneytið út leiðbeiningar3 um gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlana. Þessar leiðbeiningar voru ítarlegar og settu fram kröfur um mat á samgönguáhrifum frá nýjum uppbyggingarsvæðum. Nýjar leiðbeiningar, sem eru að miklu leyti eru byggðar á fyrri leiðbeiningunum, eru nú aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytis fyrir húsnæði, samfélög og sveitarfélög (Ministry of Housing, Communities & Local Government). Núgildandi leiðbeiningar hafa þar með verið færðar undir það ráðuneyti sem einnig hefur yfirumsjón með skipulagsmálum sveitarfélaga. Gerð samgöngumats og ferðavenjuáætlunar er leið til að meta og draga úr neikvæðum áhrifum af samgöngum og styðja við sjálfbærar samgöngur. Í bresku leiðbeiningunum er mælt með að vinna við gerð þessara skjala hefjist eins snemma og mögulegt er á skipulagsstigi og vinnist jöfnum höndum samhliða skipulagsvinnunni þar sem annað getur haft áhrif á hitt.
Cecilía Þórðardóttir, Ólöf Kristjánsdóttir
Mannvit