PDF · Útgáfa UDK.620.1 — október 2001
Tilraun með heml­unar­vega­lengd­ir mismun­andi vetrar­dekkja

Vegna umræðu sem gjarnan á sér stað á haustmánuðum hérlendis um ágæti mismunandi gerða vetrardekkja var ákveðið að frumkvæði Umferðarráðs, að ráðast í tilraunir með hemlunarvegalengdir nokkurra tegunda vetrardekkja. Tilraunirnar voru gerðar í febrúar og september árið 2001.

Ekki var ætlunin að leggja í mjög kostnaðarsamar tilraunir að svo komnu máli, heldur að prófa nokkrar dekkjagerðir við nokkur akstursskilyrði. Ákveðið var að prófa fjórar gerðir vetrardekkja við mismunandi aðstæður sem geta skapast að vetrarlagi, á þurrum ís, á blautu yfirborði og á þurru yfirborði. Jafnframt var ákveðið að mæla
hemlunarvegalengdir við tvo mismunandi hraða, þ.e.a.s. 40 og 60 km/klst og auk þess að prófa ökutæki með ABS hemlakerfi annars vegar og hefðbundnum hemlum hins vegar. Síðar var ákveðið að einskorða próf á þurru og blautu yfirborði við ABS-kerfi, eins og fram kemur í kafla 2 hér á eftir.

Vilji var fyrir hendi að prófa fleiri þætti, svo sem fleiri gerðir hjólbarða, ökutækja, akstursskilyrða, hraða o.s.frv. Þar sem hver þáttur fyrir sig hefði tvöfaldað umfang
tilraunarinnar voru tilraunirnar takmarkaðar við það sem raun ber vitni, þannig að unnt væri að ljúka hvorum áfanga fyrir sig á einum degi. Að sjálfsögðu hefði komið til álita að sleppa einum þætti til þess að prófa annan þátt, t.d. að sleppa prófunum með ABS hemlum eða hefðbundnum hemlum, en bæta við í staðinn einum hraða eða annars konar ökutæki eða öðrum dekkjagerðum o.s.frv. Í raun má segja að möguleikar á útfærslu tilrauna sem þessarar séu nánast óþrjótandi og allir áhugaverðir á sinn hátt. Takmörkun tilraunar eins og hér var gert veldur því, að aðeins fást upplýsingar fyrir þær aðstæður sem prófað er við og ekki er hægt að draga almennar ályktanir af niðurstöðunum þar fyrir utan.

Tilraun með hemlunarvegalengdir mismunandi vetrardekkja
Höfundur

Pétur Pétursson, Þórir Ingason, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins

Skrá

prohemlvegl.pdf

Sækja skrá