Verkefni þetta fjallar um þungaflutninga um vegakerfið, hver þróunin hefur verið bæði í land- og sjóflutningum síðustu árin og lagt er mat á hvort auknar strandsiglingar hafi dregið úr þungaflutningum eftir vegakerfinu. Verkefni þetta tók nokkrum breytingum frá því sem lagt var af stað með, en í upphafi var m.a. ætlunin að greina hvaða vöruflutningar fara landleiðina og hvað fer sjóleiðina með það fyrir augum að meta hvort auka megi enn frekar þungaflutninga sjóleiðina. Nauðsynleg gögn reyndust hins vegar ekki aðgengileg þar sem flutningsfyrirtækin sáu sér ekki fært að taka þátt í rannsókninni. Auk þess var ætlunin að skoða hvort hagkvæmt gæti verið að auka þungatakmarkanir og eftirlit meðþungatakmörkunum til að þrýsta þungaflutningum enn frekar út á sjó og mögulega létta þannig á vegakerfinu. Í ljósi þess að umfang verkefnisins var minnkað var hins vegar ákveðið að láta þann þátt bíða, enda krefst hann nokkuð viðamikillar greiningar sem ekki rúmaðist innan ramma rannsóknarinnar.
Í verkefninu er lagt mat á það hvort það að strandsiglingar voru teknar upp aftur árið 2013 hafi dregið úr fjölda þungra bíla á þjóðvegum landsins. Í því skyni eru borin saman gögn um flutninga um hafnir landsins og gögn um fjölda þungra bíla úr umferðargreinum Vegagerðarinnar. Þegar horft er á tölur frá umferðargreinum í heild má sjá að á nokkrum stöðum verður greinilegur samdráttur í fjölda þungra bíla eftir 2013. Á öðrum stöðum virðist þungum bílum fjölga nokkuð jafnt og þétt milli ára. Gögn um vöruflutninga um strandsiglingahafnir sýna svo ekki verður um villst umtalsverða aukningu á vöruflutningum um þær hafnir frá og með árinu 2013 þegar strandsiglingar hófust aftur. Þó ekki sé hægt að fullyrða um beint orsakasamhengi þarna á milli þá bendir allt til að upptaka strandsiglinga hafi dregið úr umferð þungra bíla á ákveðnum leiðum eða í það minnsta gert það að verkum að aukning þungra bíla varð minni en annars hefði orðið.
Bættar vegasamgöngur um landið hafa gert landflutninga samkeppnishæfari við sjóflutninga. Í skýrslunni er rakið stuttlega hvernig vöruflutningar með ströndinni hafa þróast síðustu áratugi og hvernig þær breytingar leiddu til mikillar aukningar þungaflutninga eftir vegakerfinu og skoðuð eru gögn um vöruflutninga um hafnir landsins síðustu árin til að greina þróunina.
Í skýrslunni er bent á þá staðreynd sem oft vill gleymast að íslenska vegakerfið er í raun mjög viðamikið og rekstur þess hlutfallslega mun stærri biti fyrir þjóðarbúið heldur en í nágrannalöndunum. Því sé mikilvægt að huga vel að þeim fjárfestingum í samgöngumannvirkjum sem ráðist er í og haga uppbyggingu þannig að þær nýtist sem best. Í því skyni er fjallað um áhrif þungaflutninga á vegakerfið og þeirri spurningu varpað fram hvort óhóflegt álag sé að valda ótímabæru sliti á vegum eða hvort frekar sé um að kenna að ónógu fjármagni sé veitt til viðhalds og endurbygginga. Sýnt er fram á að framlög til viðhalds vega hafa nánast staðið í stað frá árinu 2004 á sama tíma og umferð hefur aukist og bílum og íbúum fjölgað verulega. Auk þess er rýnt í rannsóknir sem gerðar hafa verið síðustu ár um hagkvæmni þess að taka aftur upp strandflutninga. Þegar stóru skipafélögin byrjuðu aftur að bjóða uppá strandsiglingar árið 2013 í tengslum við millilandasiglingar kom á daginn að notkunin varð mun meiri en gert var ráð fyrir í upphafi. Leiddar hafa verið líkur að því að sparnaður fyrirtækja á landsbyggðinni vegna hagkvæmari flutninga nálgist milljarð króna á ársgrundvelli. Ekki má gleyma eim mikla akstri flutningabifreiða sem sparast við að þessir flutningar færist yfir á sjó, en lauslega áætlað má gera ráð fyrir að þetta flutningsmagn hafi sparað ríflega 3 milljón km akstur á ári.
VSÓ Ráðgjöf