PDF · október 2017
Taln­ingar á hjól­reið­aumferð. Bætt aðferða­fræði með leit­un til nágranna­landa

Í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er meðal annars sett fram markmið um að auka hlutfall göngu og hjólreiða í öllum ferðum. Talningar á hjólreiðaumferð á höfuðborgarsvæðinu er hins vegar af skornum skammti í dag og því getur verið erfitt að meta breytingar. Tilgangur þessa verkefnis var að skoða dæmi erlendis frá um hvernig staðið er að hjólreiðatalningum og í framhaldi af því að stilla upp aðferðafræði við talningar hér og koma með grunn að hjólreiðatalningarstöðum á höfuðborgarsvæðinu. Almennt er tölfræði umhjólreiðar mikilvæg meðal annars til að skýra þróun slysa og veitir líka upplýsingar um áhrif tiltekinna aðgerða er snú að hjólreiðamönnum, til dæmis uppbyggingu hjólastíga, vetrarþjónustu og fleira.

Í skýrslunni kemur fram að hjólreiðatalningar eru ýmist handvirkar eða sjálfvirkar. Fyrri aðferðin hefur þá kosti að hægt er að skrá fleiri atriðið en bara fjölda hjóla, s.s. kyn hjólreiðamanns, hjálmanotkun og fleira, en hún er aftur á móti dýr og nokkurri óvissu háð, þar sem yfirleitt er ekki hægt að telja nema stuttan tíma í senn. Sjálfvirkar talningar auðvelda það að safna gögnum yfir lengri tíma og þannig skrá tímabundnar breytingar á umferðarmagni, en þó er settur ákveðinn fyrirvari um skekkjur. Í skýrslunni er greint frá mismunandi búnaði fyrir sjálfvirkar talningar.

Til að kanna hvernig staðið er að talningu hjólreiðaumferðar í öðrum löndum, voru skoðuð dæmi frá Noreg og Danmörku sem og frá Portland í Oregonfylki í Bandaríkjunum. Greint er
frá þessu í skýrslunni, sem og úrvinnslu, framsetningu og nýtingu gagna úr talningunum.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar eru teknar saman tillögur til bættrar aðferðafræði við talingar hér á landi. Lagt er til að mynda bæði heildarsýn á landsvísu og að sveitarfélögin vinni líka að bættum talningum. Meðal annars er lag til að gera hjólreiðatalningaáætlun á landsvísu og að gerðar verði leiðbeiningar um skipulag, framkvæmd og úrvinnslu talninganna. Þá er lagt til að ársdagsumferð (ÁDU) hjólreiða verði reiknuð. Einnig ætti að gera hjólreiðatalningaáætlun innan sveitarfélaga, fjölga talningastöðum og fjárfesta í föstum teljurum, sem og færanlegum sjálfvirkum búnaði til að telja á fleiri stöðum en þar sem fastir teljarar eru. Gerðar eru sérstakar tillögur um staðsetningu fastra teljara á höfuðborgarsvæðinu.

Í lok skýrslunnar er bent á að í gisnu talningarneti sé erfitt að segja til um heildarumferð á stóru svæði. Hins vegar má nýta talningarnar í hjólreiðalíkan og þannig áætla umferð á þeim stöðum þar sem ekki er talið, sem og að spá í framtíðarnotkun. Slíkt líkan hefur verið þróað af VSÓ Ráðgjöf, með styrk frá rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Talningar á hjólreiðaumferð
Höfundur

VSÓ Ráðgjöf

Skrá

talning-a-hjolaumferd-baett-adferd.pdf

Sækja skrá